NTC

Vaxtarrými fyrir norðlenska sprota

Vaxtarrými fyrir norðlenska sprota

Nýsköpunarhreyfingin Norðanátt býður upp á öflugt Vaxtarrými í annað sinn í haust. Vaxtarrými er átta vikna viðskiptahraðall beint að sjálfbærni, með áherslu á mat, vatn og orku þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakinu.

Norðanátt fékk fyrr í sumar styrk frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu til að endurtaka hringrás nýsköpunar á Norðurlandi en hún samanstendur af viðburðum sem styðja við frumkvöðla með hugmyndir á ólíkum stigum.

Í vor var haldin nýsköpunarkeppnin Norðansprotinn en hún markaði upphaf hringrásarinnar. Viðskiptahraðallinn Vaxtarrými tekur svo við í haust og í lok mars á næsta ári fer fram fjárfestahátíð á Siglufirði.

Fjárfestahátíð Norðanáttar var haldin í fyrsta sinn sl. vor og hún vakti mikla athygli, en þetta var fyrsta hátíð sinnar tegundar hér norðan heiða. Á næsta ári mun Norðanátt einnig bjóða erlenda fjárfesta velkomna en völdum sprota- og vaxtarfyrirtækjum verður boðið að taka þátt í þjálfunarbúðum fyrir hátíðina og því einstaka tækifæri að kynna sín fyrirtæki og verkefni fyrir íslenskum og erlendum fjárfestum. 

Norðanátt hefur sömuleiðis hafið samstarf við háskólana á svæðinu, Háskólann á Akureyri og Háskólann á Hólum með það fyrir augum að efla nýsköpun og frumkvöðlastarf nemenda. 

Kynningarfundur Vaxtarrýmis fer fram 13. september í gegnum netið en umsóknarfrestur er til og með 19. september. Vaxtarrými er byggt upp að fyrirmynd viðskiptahraðla og er sérhannað með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða. Sex til átta teymi verða valin til þátttöku.

Teymin hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi og víðar á ráðgjafafundum, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli. Átta teymi tóku þátt í Vaxtarrými 2021 og stendur þeim til boða að taka þátt sem svokallaðir Alumni frumkvöðlar og sitja fræðslufundi og leiðbeina árganginum í ár. Þannig má skapa virkt frumkvöðlasamfélag með jafningjaráðgjöf á Norðurlandi. 

Vaxtarrými hefst 3. október og lýkur 24. nóvember og fer fram að mestu leyti á netinu. Teymin hittast fjórum sinnum meðan á verkefninu stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi. Lokaviðburður Vaxtarrýmis fer fram 24. nóvember með fjárfestakynningum teymanna sem taka þátt. 

Leitast er eftir þátttakendum, þ.e. frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Norðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja nýta Vaxtarrými Norðanáttarinnar til að vaxa. 

Sótt er um á vefsíðu Norðanáttar – www.nordanatt.is.

Umsóknarfrestur er til og með 19. september. 

***Um Norðanátt – Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið umhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Að verkefninu Norðanátt koma Eimur, SSNV, SSNE, RATA og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið auk samstarfsaðila. Hópurinn vinnur í anda nýrrar klasastefnu, þvert á stofnanir samfélagsins og hraðar framþróun og nýsköpun. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó