Varð vitni að hómófóbíu, kvenfyrirlitningu og rasisma í bíó á Akureyri:„Veist þú hver er að tala við barnið þitt og veist þú hvað barnið þitt er að segja?“

Varð vitni að hómófóbíu, kvenfyrirlitningu og rasisma í bíó á Akureyri:„Veist þú hver er að tala við barnið þitt og veist þú hvað barnið þitt er að segja?“

Aðalbjörn Jóhannsson, tómstunda- og æskulýðsfulltrúi hjá Þingeyjarsveit, deildi hugleiðingum sínum á Facebook-síðu sinni í gær eftir óhuggulega upplifun í bíó á Akureyri.

„Kæru foreldrar á stór-Akureyrarsvæðinu. Eigið þið ungling á aldrinum c.a. 12-15 ára sem fór með vinum sínum á nýju Ant-Man myndina í bíó í kvöld? Ekki seint, bara uppúr sjö. Sat hann aftast í A-sal? Lærði hann homophobiuna heima hjá sér? En rasismann? Hvar lærði hópur unglingsdrengja á mjög breiðu bili kynþroska að þeir þyrftu ekki að skammast sín fyrir að velta upphátt á milli sín skemmtilegustu leiðunum til að nauðga bekkjarsystur sinni, svona rétt á meðan þeir skoðuðu klámsíður í hléi og gerðu grín að kynfærum ókunnugra?“ skrifar Aðalbjörn.

„Einn þeirra má eiga það að hann var ekki alveg að fíla þetta og bað hina um að hætta. Honum snerist þó fljótt hugur þegar uppnefnin byrjuðu. Hann var til í að vera nauðgari í gríni…… Það var skárra en að vera kallaður hommi í bíó.“

Aðabljörn segir að flestir þeir unglingar sem hann þekki séu færir um að vera besta og kærleiksríkasta fólk samtímans, kynslóð samkenndar og framsýni. Hann segir að það samfélagsmein sem hann og fleiri bíógestir hafi orðið fyrir í gær sé ekki sjálfsprottið og það dafni ekki án áburðar. Hann biðlar til foreldra um að vera meðvituð um hvað börnin þeirra segi.

„Það var ekki bara virðingarleysið, það var sjálfstraustið. Þeir treystu því að þetta væri bara í lagi. Að félagarnir tækju vel í þetta. Sem þeir gerðu. Flestir þeirra átta sig á því að þetta var óábyrgt tal, að það er ekki í lagi að nauðga, hommar eru ekki versta sort, konur eru ekki hlutir. En flestir eru ekki allir og einn er of mikið. Kæra foreldri. Hvað sér barnið þitt. Hvað heyrir barnið þitt. Veist þú hver er að tala við barnið þitt og veist þú hvað barnið þitt er að segja?“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó