Framsókn

Var ljóðið samið daginn eftir morðið á Lennon?

Var ljóðið samið daginn eftir morðið á Lennon?

Í dag, 8. desember eru 40 ár liðin frá morðinu á John Lennon. Í gær gaf skólafélag Menntaskólans á Akureyri út skólablaðið Muninn. Blaðið kom fyrst út árið 1927. Leiðir John Lennon og Munins lágu saman vorið 1981 þegar minningarljóð um Lennon birtist í blaðinu eftir óþekktan höfund.

Ljóðið er um margt merkilegt þar sem um samtímakveðskap er að ræða. Jafnvel má leiða líkum að því að ljóðið sé kveðið daginn eftir morðið á Lennon þann 8. desember árið 1980 ef marka má fyrstu ljóðlínu. Undirskrift hins óþekkta höfundar ýtir enn frekar undir tilgátuna. 

In Memoriam – John Lennon

John, þú ert dauður, þig drap í gær maður,
með dágóðu skoti þig felldi í val.
Andláti þínu varð Alfaðir glaður
þig óðfluga setti í hásætissal.

Þú ólst upp hér forðum í óþverra city,
sem angað’ af kolum og verksmiðjudaun.
Þú æfðir á gítar en, oh what a pity,
aðrir þér bölvuðu, hátt og á laun.

Þótt grannana angraði gutl þitt á strengi,
þú gegndir þeim engu, hélst áfram af þrá.
Seinna meir hittirðu herlega drengi
og hljómsveit þú reistir í tygjum við þá.

Og bráðlega lýðurinn Bítlana ræmdi,
að bragði við fætur þér heimurinn lá.
Hún Ella varð hrifin og orðu þig sæmdi,
(aðall í Bretlandi móðgaðist þá).

Þá hápunkti frægðar er náð, kemur hrörnun,
þið hélduð til Vesturheims, settust þar að.
Þið urðuð svo hrifnir af indverska hörnum,
að andríki og samhugur hrundi í spað.

En síst var þinn andi af auðæfum þrotinn,
þú átaldir styrjaldir, boðaðir frið.
Auðvitað varstu á endanum skotinn,
eins fór King Luther, sem grannt þekkjum við.

Þótt lífið sé kvatt, er ei lögmálið brotið,
en langt er nú síðan það óðinn oss gaf.
Þótt ævin sé þrotin, þá enginn fær skotið
orðstírinn þinn niðr’í gleymskunnar haf.

                                                    K.S.S. ’80.


Heimildir: Muninn 53. árgangur, 3. tbl. og ma.is

VG

UMMÆLI