Var Akureyri felustaður hersins?

Var Akureyri felustaður hersins?

Mikil leynd ríkti yfir braggahverfum setuliðsmanna í útjaðri Akureyrar á hernámsárunum. Almenningi var stranglega bannað að koma inn á braggasvæðin nema í sérstökum tilfellum. Setuliðsmenn áttu til að hleypa börnum inn í hverfin sér til skemmtunar, útdeildu sælgæti og léku við þau. Hverfin voru heimur út af fyrir sig sem fáir aðrir en setuliðsmenn höfðu aðgang að. Heimildir um hvernig umhorfs var í hverfunum og hvernig lífið gekk fyrir sig í þeim eru af skornum skammti og byggjast fyrst og fremst á ljósmyndum og frásögnum setuliðsmannanna sjálfra.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í máli Jóns Hjaltasonar sagnfræðings í fyrsta þætti af Leyndardómum Hlíðarfjalls. Jón segir Bretana hafa verið stranga þegar kom að því að halda Íslendingum fyrir utan hverfin en ekkert í líkingu við Bandaríkjamenn. Með komu þeirra í bæinn hafi öllu verið skellt í lás.

Sagnalist framleiðir þættina sem eru fimm talsins. Fyrsti þáttur ber yfirskriftina Hernám og Varðveislumenn. Í þættinum greinir Jón frá því hvernig setuliðsmennirnir bjuggu í búðum fyrir utan bæinn á meðan vistir hersins voru geymdar á Akureyri.

„Þótt að snemma væri farið í það að byggja hér herbúðir allt í kring, þá held ég að bærinn hafi verið notaður sem felustaður fyrir birgðir hersins. Það voru ekki stórar herbúðir í bænum sjálfum en hér voru geymdar allskonar vistir og gögn, hér og þar í bænum. Það er kannski alltaf gert í stríði. Þú notar óbreytta borgarann til að fela það og skýla því sem þú vilt ekki láta óvininn skemma fyrir þér. Það var gert þarna líka óspart.“

Nálgast má þáttinn á hlaðvarpssíðu Grenndargralsins. Annar þáttur fer í loftið 28. ágúst, þriðji þáttur 29. ágúst og tveir síðustu þættirnir þann 30. ágúst.

Sambíó

UMMÆLI