Eyrún Gísladóttir útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri í vor og ákvað í kjölfarið að skella sér í sjálfboðastarf til Indlands og vinna þar á sjúkrahúsi í fjórar vikur. Eyrún segir í samtali við Kaffið að hún hafi ákveðið að gefa sjálfri sér ferðina í útskriftargjöf og valdi sjálfboðastarfið fram yfir hefðbundið sólarlandafrí.
Eyrún hefur barist við mikinn kvíða og þunglyndi á meðan á námi sínu stóð en hefur tekist að vinna sig mikið úr þeim vanda og vildi glíma við þá áskorun að ferðast ein til Indlands.
,,Það eru margir sem telja að Indland sé mjög hættulegt fyrir konu eina á ferðalagi en mér fannst ég þurfa að takast á við þetta verkefni ein,” segir Eyrún.
Eyrún vann í þrjár vikur á ríkisreknu sjúkrahúsi í norður Indlandi og eyddi svo síðustu vikunni í að kenna börnum í litlu þorpi ensku og stærðfræði.
Sjúkrahúsið, sem er staðsett í Paprola í Himachal Pradesh, sérhæfir sig í svokölluðum Ayurvedic lækningum en hugtakið felur í sér samþættingu hugar, líkama, tilfinninga og sálar.
Eyrún starfaði mest við almenna hjúkrun á sjúkrahúsinu þar sem almenn lyf voru gefin í bland við Ayurvedic lyf.
Hún segir það ómögulegt að bera heilbrigðiskerfið á Indlandi saman við íslenska heilbrigðiskerfið. Munurinn á þeim heilbrigðisvandamálum sem við glímum við hérlendis eru svo frábrugðin þeim sem Indverjar glíma við.
,,Hér eru okkar helstu vandamál tengd lífstilstengdum sjúkdómum á meðan á Indlandi er vandinn vanþekking, vannæring, óhreinlæti og sýkingar. Í norður Indlandi er mikil fátækt og þar af leiðandi mikill skortur á næringu, hreinu vatni og heilbrigðisþekking er lítil.”
Ekkert spritt í boði og starfsmenn deildu sápustykki
Sjúkrahúsið sem Eyrún starfaði á var mjög óhreint og var hægt að sjá flugur og maura út um allt. Maurarnir komust meira að segja inn í vökvadælurnar. Á ríkisreknum sjúkrahúsum í Indlandi er öll þjónusta frí en sjúklingar þurfa á móti að borga fyrir öll lyf og fylgihluti eins sprautur, nálar, æðaleggi o.s.fv.
,,Þar sem að mikil fátækt er þá höfðu skjólstæðingarnir ekki efni á nýjum sprautum og nálum í hvert sinn sem að þau þurftu lyfjagjöf í æð og því þurfti ég að nota sömu sprautur og nálar oft sem að mér þótti einstaklega erfitt. Spritt var ekki í boði á sjúkrahúsinu og því var ekki hægt að hreinsa æðaleggi eða nálar á milli gjafa. Ég endaði á því að kaupa mér sjálf spritt og ganga með á mér til að reyna að halda hreinlætinu eins miklu og ég gat. Hanskar voru heldur ekki í boði og hjúkrunarfræðingar þvoðu sér eingöngu um hendurnar eftir klósettferðir eða mat, en þá var notað sápustykki sem að allir deildu,” segir Eyrún.
Eyrún segir það virkilega erfitt að starfa undir þessum kringumstæðum, þar sem hreinlæti og heilbrigðisþekking er svona lítil. Indverjar eru þó tiltölulega heilbrigðir í samanburði við aðrar þjóðir en vanþekking á hreinlæti er mikil. Það sem sló hana hvað mest var þegar hún var viðstödd fæðingu en á myndinni hér að neðan sést fæðingarstofan. Eins og sjá má er hreinlæti ekki mikið og búnaði verulega ábótavant.
,,Konan sem var að fæða fékk engin verkjalyf, sat að virðist í mjög óþægilegri stellingu og þegar barnið kom fékk móðirin rétt að sjá það áður en barnið var tekið í burtu og sagði starfsfólk sjúkrahússins mér að hún fengi barnið í hendurnar nokkrum klukkustundum síðar þegar hún væri búin að jafna sig.”
Gaf tveggja mánaða barni háan skammt af sýklalyfi beint í æð
Eyrún var einnig viðstödd skurðaðgerð þar sem læknar sjúkrahússins notuðu ýmsar aðferðir til þess að halda áhöldum og sjúklingum sterílum en umhverfið í kringum aðgerðina var langt því frá að vera sterílt.
Erfiðast fannst henni þó að hafa þurft að gefa tveggja mánaða gömlu barni mjög háan skammt af sýklalyfi beint í æð en sýklalyf eru gefin í mjög miklum mæli á Indlandi.
Þrátt fyrir þetta segist Eyrún ólm vilja fara aftur til Indlands og halda áfram í sjálfboðastörfum.
Indland fékk sjálfstæði árið 1947 og síðan þá hafa orðið miklar breytingar í landinu en þó er margt verulega ábótavant, líkt og heilbrigðiskerfið. Að sögn Eyrúnar er mikil spilling í landinu en margir indverjar binda vonir sínar við núverandi forsætisráðherra landsins um að breytingar séu í nánd. Hann hefur nú þegar sett af stað ýmis verkefni eins og Clean India og National Health assurance mission.
,,Ég hef trú á að ástandið á heilbrigðiskerfinu á Indlandi muni verða betra, en miklar breytingar hafa nú þegar orðið. Ég mun klárlega koma aftur til Indlands, það er alveg víst, og ég hef mikinn áhuga á að halda áfram í sjálfboðastörfum,” segir Eyrún að lokum.
UMMÆLI