NTC

Vandræðaskáld í viðtali – „Ekki fokka í LÍN á netinu, þá fokka þeir í þér á móti”

Vandræðaskáldin Sesselía og Vilhjálmur.

Vilhjálmur B. Bragason og Sesselía Ólafsdóttir, sem saman kalla sig Vandræðaskáld, hafa verið mjög áberandi í Akureyrsku skemmtanalífi upp á síðkastið. Nýlega vakti myndband sem þau settu inn á netið um áramótin gífurlega athygli, en því hefur verið deilt 1.500 sinnum og áhorfin eru 158 þúsund, sem nemur tæpum helming þjóðarinnar. Lagið var nýárskveðja eða annáll frá dúettinum þar sem þau fara yfir viðburði ársins. Þar á undan vakti lagið þeirra um lánasjóð Íslenskra námsmanna mikla athygli og var því deilt á helstu fréttamiðlum landsins.

Vilhjálmur er með mastersgráðu í leikbókmenntum frá the Royal Academy of dramatic arts í London og Sesselía lærði leiklist og leikstjórn í Kogan Academy of dramatic arts í London. Kaffið spjallaði aðeins við Vandræðaskáld um byrjunina, myndböndin og framhaldið.

Jónas Hallgrímsson downloadaði klámi
Aðspurð af hverju Vilhjálmur og Sesselía virka saman sem dúettinn Vandræðaskáld slógu þau á léttar nótur.

„Þetta byrjaði náttúrulega sem samfélagsþjónusta, við vorum dæmd á sama tíma…
Nei, grínlaust þá byrjuðum við að hanga saman í menntaskóla og vorum mikið að skrifa ljóð og lesa fyrir hvort annað ljóðin sem við höfðum skrifað.
‘The outreach to the young people program’ kölluðum við það því að við vorum örugglega einu menntaskólanemarnir í heiminum sem að keyrðu Eyjafjarðarhringinn og lásu ljóð hvert fyrir annað. Það voru allavega ekki allir á rúntinum í því á þeim tíma. Þá leiddist þetta líka út í fleira eins og sketcha og svoleiðis.”

Þau segja að menntaskólaárin hafi verið grunnurinn að samstarfi sínu í dag, þó svo að þeim hafi ekki órað fyrir því að þau yrðu dúett af þessari stærðargráðu. Þau voru bæði í námi úti í London þegar þau fóru að hanga saman aftur, spila og semja lög saman. Þá spilaði hvorugt þeirra á hljóðfæri í menntaskóla en þau voru bæði orðin sjálflærð á hljóðfæri þegar þau voru í London, Vilhjálmur á píanó og Sesselía á gítar.
Þetta byrjaði í raun allt saman með einu lagi sem þau sömdu saman, segja þau.

„Við sömdum fyrir slysni lag sem heitir ‘hættum að photosjoppa fortíðina’, sem okkur finnst óþolandi í dag. Þar erum við að væna frægar hetjur mannkynssögunnar, sérstaklega íslensku mannkynssögunnar, um einhverja hræðilega hluti. T.d. að Jónas Hallgrímsson hafi downloadað klámi og að Halldór Kiljan hafi ekki verið mikið fyrir hyljann, að hann hafi verið svona flassari. Svona eins og maður gerir.”

Skemmta á kótilettu kvöldum og árshátíðum

Haustið 2015 settu Vandræðaskáld upp sýninguna: Útför – Saga ambáttar og skattsvikara sem að þau sýndu á Akureyri 10 sinnum ásamt því að fara með sýninguna austur á Vopnafjörð og til Reykjavíkur. Meðfram því hafa þau komið fram á árshátíðum, Litlu-jólum, þorrablótum og þar fram eftir götum.

„Vinur minn einn segir reyndar að ég lifi undarlegasta lífi sem hann veit um af því að staðirnir sem við höfum verið að spila á séu upp til hópa svo skrítnir. Hvar auglýsiði eiginlega?, spurði hann mig. Þú veist, þegar maður er að spila á kótilettu kvöldi í Oddfellow húsinu og næst á litlu jólum háskólans”, segir Vilhjálmur.

Sesselía bætir þá við að þau hafa ekkert auglýst sig sérstaklega.
„Þetta berst bara svona manna á milli. fólk hefur heyrt að við séum með veislustjórn og skemmtanir og svo bara hefur fólk samband við okkur. Svo hafa þessi myndbönd sem við höfum sett á netið líka hjálpað okkur”.

Auglýsing fyrir sýninguna þeirra: Útför – Saga ambáttar og skattsvikara.


2017 stórt ár fyrir Vandræðaskáld

Vilhjálmur og Sesselía vildu ekki gefa of mikið upp í viðtali við Kaffið um komandi viðburði 2017. Þau fullyrtu þó að margt væri í pípunum og mögulega væri von á tónleikaferðalagi um landið hjá dúettinum ásamt öðrum viðburðum.
Einnig eru þau að semja söngleik sem er byggður á frægri íslenskri draugasögu um Miklabæjar-Sólveigu.
„Hann er ekki saminn undir formerkjum Vandræðaskálda beinlínis, en við erum bæði að vinna að því. Það er húmor í honum en þó er þetta ekki gamanverk” segja þau um söngleikinn sem er í vinnslu.

Ekki fokka í LÍN á netinu
Vandræðaskáld hafa nú þegar samið fjöldann allan af lögum, saman og í sitthvoru lagi, og fannst Kaffinu mikilvægt að spyrja hvað væri þeirra allra uppáhaldslag. Þau voru sammála um það að uppáhaldslögin þeirra væru yfirleitt þau lög sem að fólki þætti skemmtilegust.
Þá nefndu þau bæði lagið þeirra ,,Geggjað sem fjallar um hættulega jákvæða manneskju.
Þau voru bæði í efa um það hvort að lagið væri nógu gott en þegar þau svo fluttu það í fyrsta skiptið fékk það frábærar viðtökur og í augnablikinu halda þau bæði upp á það lag.

„Já það fjallar um jákvæðni sem fer úr böndunum, eins og gerist svo oft í samfélaginu. Mikið samfélagsmein”, segir Vilhjálmur.
„Það sem er svo skemmtilegt er að við eigum okkur uppáhaldslög sem hvort okkar hefur samið og líka sem við höfum samið saman.
Lagið okkar Sainsbury wing höldum við mikið upp á en það er ekki beint haha fyndið. Það er húmor í því en fyrst og fremst er það fallegt lag og einna persónulegasta lagið sem við höfum samið um að búa í útlöndum og vera í burtu” bæta þau við.

„LÍN lagið er nú nokkuð persónulegt líka reyndar…Já það er mjög persónulegt. Þeir voru nú bara að senda mér rukkun fyrir tveimur vikum síðan. Sem kennir manni að maður á ekki að fokka í LÍN á netinu. Þá fokka þeir í þér á móti” segir Vilhjálmur og Sesselía tekur undir.

Þau segja Vandræðaskáld vera orðin mun stærri en þau áttu von á. Þau segja þetta fyrirkomulag samt virka mjög vel fyrir sig þar sem þau geta alltaf gripið í þetta á milli annarra verkefna, en þau eru með puttana í mörgum mismunandi verkum í einu, saman og í sitthvoru lagi.

„Þetta er líka frábær vettvangur fyrir okkur til að taka hluti og húmor sem passa kannski ekki í aðra hluti sem við erum að gera. Í rauninni er þetta vettvangur þar sem við getum farið aðeins yfir strikið, verið pínu vitlaus, fyndin og skemmtileg” segja þau að lokum.

Það verður sannarlega áhugavert og skemmtilegt að fylgjast með Vandræðaskáldum í ár en þau vildu hvorki játa eða neita því að tónleikar á Akureyri væru í nánd. Þó telur fréttaritari Kaffisins að fyrri kosturinn sé líklegri.
Hér að neðan má sjá umræddu myndböndin tvö:

,,Fokkaðu þér LÍN”


,,Áramótakveðja Vandræðaskálda

VG

UMMÆLI

Sambíó