Þau Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur Bergmann Bragason mynda gríndúettinn Vandræðaskáld og hafa verið töluvert áberandi á Norðurlandi, sem og öllu landinu reyndar, með frumsamið grínefni í bæði talandi- og tónlistarformi á samfélagsmiðlum og skemmtunum víðsvegar.
Þau hafa verið dugleg að gefa út efni á facebook þar sem þau birta frumsamin lög og eru komin með stóran hóp fylgjenda. Vandræðaskáld eru þekkt fyrir svartan húmor og flugbeitta þjóðfélagsádeilu en þau gera ýmist grín að pólitík, lífinu, Lánasjóði íslenskra námsmanna og bara það sem þeim dettur í hug hverju sinni.
Að þessu sinni er það lag sem þau tileinka heilabiluðum og aðstandendum þeirra en Maríuhús, sem er með dagþjálfun fyrir heilabilaða, fagnaði 10 ára afmæli sl. miðvikudag þar sem Vandræðaskáldin komu fram og frumfluttu þetta bráðskemmtilega lag.
Sesselía Ólafsdóttir vakti athygli á málefninu á facebook þegar hún deildi myndbandinu í dag.
,,Á föstudaginn var alþjóðlegur dagur Alzheimer og síðastliðinn miðvikudag átti Maríuhús, sem er með dagþjálfun fyrir heilabilaða, 10 ára afmæli.
Af því tilefni gerðum við Villi lag, tileinkað heilabiluðum og aðstandendum þeirra. Þetta er mikilvægt málefni og snertir alla á einhverjum tímapunkti.
Í dag eru um 200 einstaklingar með heilabilun á biðlista eftir að komast inn á hjúkrunarheimili og læknar með sérhæfða menntun á þessu sviði kalla eftir meira samráði við stjórnvöld um stefnumótun,“ segir Sesselía í færslunni.
Hér að neðan er hægt að hlusta á lagið:
Sjá einnig:
Vandræðaskáld senda frá sér sumarsmell: „Það er ofmetið að vera tanaður í framan”
UMMÆLI