Valur Freyr Halldórsson hefur verið ráðinn fag- og verkefnisstjóri hjá Sjúkraflutningaskólanum í fullt starf. Þetta kemur fram á vef Sjúkraflutningsskólans.
Valur er menntaður hjúkrunarfræðingur og bráðatæknir og hefur starfað hjá Slökkviliði Akureyrar síðastliðið 21 ár. Valur hefur einnig sinnt öðrum verkefnum, til að mynda í tónlist en hann er einn meðlima Hvanndalsbræðra auk fleiri tónlistarhópa.
Hann hefur einnig verið verkefnisstjóri hjá Sjúkraflutningaskólanum síðastliðin tvö ár í hlutastarfi en verið umsjónarmaður námskeiða og verkefnisstjóri í verktöku í mörg ár þar á undan. Valur ber ábyrgð á námsefni og uppfærslu þess, auk þess að sinna öðrum verkefnum sem snúa að skipulagi námskeiða í framhaldsnámi og endurmenntun.
„Það er mikið fagnaðarefni að fá jafn reyndan mann og Val til starfa og við bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa,“ segir í tilkynningu.
UMMÆLI