Valur Darri sigraði Upphátt 2025

Valur Darri sigraði Upphátt 2025

Nemendur í 7. bekk grunnskólanna á Akureyri kepptu í upplestri sem fór fram í hátíðarsal Háskólans á Akureyri í gær. Valur Darri Ásgrímsson úr Brekkuskóla stóð uppi sem sigurvegari. Keppnin er árlegur viðburður og hefst formlegur undirbúningur á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.

„Það má með sanni segja að allir lesarar hafi staðið sig með miklum sóma og því var hlutskipti dómnefndar ekki auðvelt,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Keppnin var haldin í 24. sinn og tóku 14 nemendur úr sjö skólum þátt. Þeir lásu valin textabrot og ljóð, en dómnefndin var skipuð Eyrúnu Huld Haraldsdóttur, Hólmkeli Hreinssyni og Hrund Hlöðversdóttur.

Auk Vals Darra, sem hreppti 1. sætið, lentu Katrín Birta Birkisdóttir úr Síðuskóla í 2. sæti og Inga Karen Björgvinsdóttir úr Brekkuskóla í 3. sæti. Sérstök verðlaun voru einnig veitt fyrir besta veggspjaldið, en það var hannað af Ragnheiði Klöru Pétursdóttur úr Giljaskóla.

Sambíó
Sambíó