Arndís Atladóttir sautján ára sundkona frá Akureyri fékk á dögunum ánægjulegar fréttir. Hildur Friðriksdóttir formaður Sundfélagsins Óðins og Dýrleif Skjóldal sundþjálfari heimsóttu Arndísi á dögunum og færðu henni þau tíðindi að hún hefði verið valin til þess að keppa fyrir Íslands hönd í sundi á Special Olympics leikunum sem fara fram í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Leikarnir fara fram eftir rúmt ár, dagana 14. til 21. mars 2019. Arndís hefur því góðan tíma til þess að undirbúa sig fyrir leikana.
Arndís segir að tíðindin hafi verið óvænt og ánægjuleg og að hún hafi verið rosalega glöð þegar hún fékk tíðindin í síðustu viku.
Arndís byrjaði að synda sjö ára gömul og hefur keppt í fjölmörgum mótum. Hún tók þátt í móti í Malmö í Svíþjóð fyrir skömmu þar sem góður árangur hennar vakti athygli Íþróttasambands fatlaðra sem ákvað að tilnefna hana til þáttöku í Abu Dhabi á næsta ári.
Arndís æfir þrisvar í viku – mánudaga, miðvikudaga og föstudaga – undir stjórn þjálfara síns, Laufeyjar Huldu Jónsdóttur. Auk þess stundar hún nám við starfsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri.
UMMÆLI