Útvarp Akureyri – Guð var fyrsti gesturinn

Útvarpsmaðurinn Axel Axelsson er maðurinn á bakvið stöðina.

Útvarp Akureyri fór formlega í loftið 1. desember síðastliðinn en það er útvarpsmaðurinn Axel Axelsson sem er maðurinn á bakvið stöðina. Á annan tug tækni- og dagskrárgerðarfólks kemur að Útvarp Akureyri og eru um þessar mundir að móta spennandi dagskrárliði fyrir komandi ár. Axel segir þau eiga helling af skemmtilegu dagskrárefni í pokahorninu en það fylgi því óhjákvæmilega að opna útvarpsstöð í desember að þurfa að einblína á jólalög svona fyrst um sinn. Í janúar fari allt á fullt í nýju og frumlegu efni og þá komi hinn sanni hljómur stöðvarinnar í ljós.

Alla leið í Ólafsfjarðarmúla
Fyrstu dagana gekk útsendingin ekki alveg eins og skyldi en Axel og Davíð Ingi Guðmundsson, tæknistjóri stöðvarinnar, voru ekki lengi að redda málunum segir Axel. ,,Við skelltum okkur bara yfir í heiði í frosti og stemmingu og skiptum um sendi. Þessi sem var fyrir var á lágum sendistyrk en núna erum við komin í fullan sendistyrk og ómum hérna um alla Akureyri og Eyjafjarðarsveit. Við fórum meira að segja að heyrast alla leið í Ólafsfjarðarmúla frétti ég!“

Axel segir þau stefna á þétt prógramm eftir áramót þau fá fullt af gestum í hljóðverið en nú þegar hafa nokkrir vel valdir farið í loftið á stöðinni. Fyrstu gestir stöðvarinnar voru engir aðrir en Sr. Bolli Pétur Bollason og Guð og sá Sr. Bolli um að blessa stöðina þegar hún fór í loftið 1. desember.
,,Sr. Bolli og Guð, þeir eru góðir saman! Alls ekki slæmir gestir,“ segir Axel hlæjandi.

Norðurland í brennidepli
,,Við verðum bara með Akureyri og Norðurland eystra í algjörum brennidepli, þetta er staðbundinn miðill og það er hjarta stöðvarinnar. Fólk er að taka virkilega vel í þetta og við finnum mikinn meðbyr, fólk er að segja við okkur að það sé löngu kominn tími á að fá aftur staðbundna útvarpsstöð sem Norðlendingar eiga,“ segir Axel.

Útvarpsstöðinni ætlað að ná til allra
Markhópur stöðvarinnar er verulega breiður, eða frá 20-60 ára og ætla þau hjá Útvarp Akureyri að reyna að gera sem flestum Akureyringum og nærsveitungum til hæfis með tónlistinni og dagskránni. Þá verður tónlist frá áttunda og níunda áratugnum áberandi í bland við vinsælustu lög landsins með íslenska tónlist í brennidepli. Axel hefur engar áhyggjur af því að yngri hlustendur kunni ekki að meta stöðina. ,,Tónlistaruppeldið hjá krökkum og ungu fólki í dag er miklu betra en það var held ég, þau þekkja orðið tónlist langt aftur í tímann en það má sjálfsagt orða það þannig að þetta sé meira útvarpsstöð fyrir fullorðna.“

Helena Eyjólfs og Villi Vill með kvöldmatnum
Á laugardögum verður svo íþróttaþáttur sem kallast Stórleikurinn og snertir á öllu því sem er að gerast í íþróttum á Norðurlandi ásamt því að hita fólk upp fyrir helgina. Öll hádegi milli 12 og 13 verður eingöngu spiluð íslensk tónlist og milli 18 og 19 verður þessi klassíska, gamla, íslenska tónlist. ,,Helena Eyjólfs, Villi Vill, Ellý Vilhjálms og þessi rómantísku, eldri lög. Við erum að rifja upp svona takta sem voru í útvarpi áður fyrr og voru mjög vinsælir þegar útvarpið varð frjálst hérna á Íslandi,“ segir Axel.

Axel segist hreinlega sjálfur vera orðinn spenntur fyrir því að stilla á stöðina um kvöldmatarleytið meðan hann er að elda kvöldmatinn og matreiða við ljúfa tóna Helenu Eyjólfs og fleiri goðsagna í íslenska tónlistarheiminum. Norðlendingar geta því beðið spenntir eftir janúarmánuði þegar útvarp Akureyri fer á fullt skrið og sannur hljómur stöðvarinnar kemur í ljós.

Viðtalið birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi í desember. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó