Útilistaverk á framhlið Listasafnsins á Akureyri

Útilistaverk á framhlið Listasafnsins á Akureyri

Í tilefni af Listasumri 2021 hefur Listasafnið á Akureyri sett upp útilistaverkið 2010 Þjóðfundarmiði – Ekki kjafta ykkur frá niðurstöðum stjórnlagaþings eftir Libiu Castro, Ólaf Ólafsson og Töfrateymið. Verkið, sem nú má sjá á framhlið Listasafnsins, stendur út Listasumar eða til 30. júlí næstkomandi.

Verkið er úr seríu þar sem þátttökumiðar þjóðfundarins 2010 eru stækkaðir. Á fundinum var unnin undirbúningsvinna stjórnlagaþings við ritun nýrrar stjórnarskrár. Á miðana gátu þátttakendur ritað ábendingar um áframhaldandi starf þingsins. Upprunalegu miðarnir eru nú varðveittir á Þjóðskjalasafni Íslands. Markmið landsfundanna tveggja, sem haldnir voru eftir efnahagshrunið 2008, var að virkja fólk til þátttöku í lýðræðislegu ferli til að byggja upp réttlátara samfélag.

2010 Þjóðfundarmiði – Ekki kjafta ykkur frá niðurstöðum stjórnlagaþings er hluti af hinum þverfaglega og fjölradda gjörningi Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland eftir Libiu Castro, Ólaf Ólafsson og Töfrateymið, sem fluttur var í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi og einnig við Stjórnarráðið og Alþingi í samstarfi við Listahátíðina Cycle, Listasafn Reykjavíkur og Listahátíð í Reykjavík. Libia Castro og Ólafur Ólafsson hlutu Íslensku myndlistarverðlaunin 2021 fyrir verkið.

Samvinna Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar hófst í Holland 1997 þegar þau voru í MA námi í sjónlistum við Frank Mohr Institute í Groningen. Verk þeirra byggir á samvinnu og þverfaglegri nálgun þar sem þau nýta vídeó, ljósmyndun, hljóð- og margmiðlunarinnsetningar í framsetningu sinni. Í verkum sínum kanna þau með gagnrýnum og leikandi hætti þau áhrif sem hugmyndafræðilegir, félagslegir, hagrænir, menningar- og stjórnarfarslegir þættir hafa á einstaklinginn, samfélagið og okkar daglega líf.

Libia og Ólafur voru fulltrúar íslenska skálans á Feneyjartvíæringnum 2011 og hafa sýnt verk sín í almenningsrýmum víða í borgum Evrópu og haldið einkasýningar í sýningarrýmum eins og TENT í Rotterdam, Þjóðminjasafni Íslands, CAAC Seville, Nýlistasafninu í Reykjavik, Künstler Haus Bethanien í Berlin, Listasafni Reykjavíkur, CAC Málaga, De Appel CAC í Amsterdam og Platform Garanti CAC í Istanbul. Auk þess hafa þau tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim.

UMMÆLI