NTC

Úrbóta er þörf en klárum dæmið saman

Úrbóta er þörf en klárum dæmið saman

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar:

Á undanförnum vikum hefur skapast umræða um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri og hefur umræðan þá helst tengst stærstu íþróttafélögum bæjarins, KA og Þór, og aðstöðuleysi þeirra. Úrbóta er þörf en það verður að horfa heildstætt á hlutina. Þessi tvö félög þurfa að setjast niður saman með bæjarfulltrúum og ákveða í eitt skiptið fyrir öll hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar. 

Auðvitað væri einfaldast og ódýrast fyrir bæinn að sameina bara þessi íþróttafélög en við viljum heilbrigða samkeppni, fleiri tækifæri fyrir börnin okkar og sjálfboðaliðastarfið er hverju félagi nauðsynlegt. En hvað er þá til ráða? Munu Þórsara t.d. ekki koma á eftir KA mönnum og vilja sinn gervigrasvöll? Er það knattspyrnunni til framdráttar að bærinn reki fjóra gervigrasvelli sem þarf að skipta út á einhverra ára fresti og fjármagn til viðhalds af skornum skammti. Deildirnar lengjast ár frá ári og því ljóst að við verðum að girða okkur í brók og koma upp gervigrasvelli sem samræmist kröfum KSÍ sem bæði félögin hafa afnot af, hvar sem hann væri staðsettur. Við sættum okkur ekki við annað en toppaðstæður ef við viljum vera samkeppnishæf. 

Það vinnst ekkert með því að hvert félag vinni bara í sínu horni og hái sína baráttu eitt og eltingaleikurinn um aðstöðu og fjármagn haldi áfram. Það vantar þessa sameiginlegu sýn sem byggist á hagsmunum allra, það þurfa þá alltaf einhverjir að gefa eftir en eftir standa sterkari félög sem geta þá skipulagt sig til framtíðar. 

Nú hefur Akureyrarbær skrifað undir viljayfirlýsingu við KA um uppbyggingu á félagssvæði þeirra en þarf þetta samtal ekki að fara fram fyrst? Hvaða þjónustu ætlum við að bjóða upp á, hvaða félög ætla að gera það og í hvaða húsum? Þá fyrst eru Þór og KA tilbúin í deiliskipulagsvinnu á sínum félagssvæðum. 

Það eru mörg íþróttafélög á Akureyri og við viljum bjóða upp á þessa fjölbreytni fyrir börnin okkar. Við búum ekki við þann lúxus að geta skipt með okkur minni greinum eins og hægt er að gera á höfuðborgarsvæðinu og það kostar sitt að reka þetta allt saman. Til samanburðar kemur fram í tölulegum gögnum hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að árið 2019 fóru 14% skatttekna Akureyrarbæjar í æskulýðs- og íþróttamál á móti 8% í Hafnarfjarðarbæ og 10% í Kópavogi. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er fulltrúi Framsóknarflokks í frístundaráði Akureyrarbæjar

Sambíó

UMMÆLI