Uppskrift að góðum degi – Nýr þáttur á N4

Uppskrift að góðum degi – Nýr þáttur á N4

Uppskrift að góðum degi er glænýr þáttur sem verður frumsýndur á N4 miðvikudaginn 26. september. Í þættinum leggur Skúli Bragi Magnússon, dagskrárgerðarmaður, af stað í ferðalag um Norðurland Eystra til þess að leita uppi áhugaverða staði og leyndar perlur.

Skúli Bragi Magnússon. Mynd/N4.is

„Það er alveg ótrúlegt hvað það er mikið sem er hægt að gera og hvað það er mikið sem Norðurland eystra hefur uppá að bjóða. Við lentum satt best að segja í heljarinnar vandræðum þegar að við fórum að velja hvaða staði við ættum að heimsækja. Við byrjuðum á að skrifa niður allt það sem okkur langaði mest að gera. Sá listi varð mjög fljótt, mjög langur og þá fórum við að skera niður. Við enduðum síðan með aðeins lítið brot af öllu því sem við hefðum viljað gera,“ sagði Skúli Bragi.

Auk Skúla Braga komu Annetta Ragnarsdóttir, framleiðandi og Árni Rúnar Hrólfsson, kvikmyndatökumaður að gerð þáttanna.

„Að vinna þessa þætti var alveg hreint magnað. Það er ekkert sem jafnast á við það að ferðast um landið sitt og upplifa allt það besta sem það hefur uppá að bjóða. Upplifa kyrrðina, náttúrufegurðina, tengslin við náttúruna og njóta. Ég upplifði það aldrei eins og ég væri í vinnunni. Það var alltaf eitthvað nýtt að sjá og skoða. Þegar að við keyrðum á milli staða þá var það alltaf í stórbrotinni náttúru þannig að það gat verið erfitt að slökkva á myndavélinni og halda áfram. Síðan má ekki gleyma öllu áhugaverða fólkinu sem við hittum á ferðalaginu og þar ber helst að nefna Elís Orra Guðbjartsson sem ákveður að slást með okkur í för. Ég eignaðist nefnilega ekki bara minningar á ferðalaginu heldur einnig vini,“ sagði Skúli Bragi

Þættirnir sem eru framleiddir af N4 eru styrktir af Uppbyggingasjóði Norðurlands eystra.

Hér fyrir neðan má svo sjá stutt kynningarmyndband um þáttinn.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó