NTC

Uppsetning á heimsmælikvarða

Uppsetning á heimsmælikvarða

Hrafndís Bára Einarsdóttir skrifar

Síðustu helgi sá ég Skugga-Svein í uppfærslu Leikfélags Akureyrar í leikstjórn Mörtu Nordal, leikhússtjóra. Þó ég segi jú alltaf að mér finnist allt frábært þegar kemur að leikhúsi nema algerlega í undantekningartilfellum þá bara verð ég að fá að segja svolítið. 

Þessi uppsetning er á heimsmælikvarða þegar kemur að sviðslist. Þvílíkt konfekt í fullkominni samhæfingu allra þátta góðrar leiksýningar. 

Sævar Helgi, sá ungi drengur, sér um framsækna tónlist verksins, sem bara hlýtur að taka Edduna. Ég trúi ekki öðru. Svo mikil virðing við þetta gamla verk á sama tíma sem hann leikur sér að því að sleppa allskonar formum inn í flæðið án þess að slá nokkursstaðar feilhögg.

Óður til leiklistarsögunnar okkar, með vísun í gömlu leiktjöldin hans Sigurðar Guðmundssonar fékk mig til að skæla. Þau í fallegu samspili við látlaus tjöld og klassíska leikmuni, sem sennilega komu úr rótinu í leikmunageymslunni góðu að upplagi. 

Þá þessir búningar! Vil ég helst nefna hollninguna á henni Grasa-Guddu sem var óaðfinnanleg. Þessi nálgun hennar Bjargar Mörtu er svo æðisgengin blanda af frumlegt, fyndið og fornt að í fyrsta sinn þá fannst mér búningahönnun hafa veruleg áhrif á framsöguna og þar af leiðandi mína skoðun eða upplifun á henni. 

Ég ætlaði nú samt að tala mest um leiklistina sjálfa. Og list er það sannarlega þegar þaulreyndar kanónur í bland við ungt og bráðefnilegt fólk spinnur saman einhvern galdravef utan um fullkomna hvíld, sín í hverju hlutverkinu. 

,,Method“ vinna Jóns Gnarr er óaðfinnanleg og maður finnur til með þessum útilegumanni sem lífið hefur gert harðbrjósta og kaldann en á sama tíma langar mann að gefa þessum þöngulhaus og skítseyði ískaldan kinnhest. 
Sunna Borg situr svo vel í skökkum og skakklappalegum skrokki Grasa-Guddu að maður steingleymir að um leik sé að ræða og fer að skamma leikstjórann í huganum fyrir að leggja þetta á svona veiklulega konuna. 

Að sjá Maríu Páls njóta sín í þessu leikhúsi er eins og að fá sér ristað brauð með smjöri, osti og marmelaði og nesquick með. Það kallar fram gæsahúð og ljúfar minningar líkt og um Gullna Hliðið þar sem hún fór svo á kostum að það mun alltaf hafa mótunaráhrif á mig. 

Villi minn kær sem Ketill Skrækur, Vilhjálmur Bragason, betur þekktur okkur Akureyringum sem Villi Vandræðaskáld. Krónískur sauðasvipur hans með gáfnastýrur á við dautt hross, einstaka geiflu í kjaftinum og mæðina áþreifanlega. Það voru mín mestu átök að horfa helst ekki á hann því það kallaði ósjálfrátt fram hlátur, hvað svo sem annað var að eiga sér stað á sviðinu. 

Og sjálfrátt var mér ekki á þessari sýningu. 

Árni Beinteinn er kominn. Mættur. Hann er ekki að fara neitt. Ég er gersamlega heilluð af honum. Hann og Þórdís Björk hin bjarta eru svo glæsilegt ungt leiklistarfólk að mig langar að eiga þau. Greiða þeim og gefa þeim kex! 
Völu Fannell var ég að sjá í fyrsta sinn leika og hún var ekkert að tvínóna við hlutina. Með horreimina rympaða um sig miðja, tók þessi hægláti karakter sér nákvæmlega það pláss sem hann átti. 

Að lokum vil ég fara fram á að Björgvin Franz verði kyrrsettur hér á Akureyri með lagasetningu. Þessi útgáfa af Lárensíusi er sennilega einhver sú albesta heimfærsla sem ég hef séð. Einhver hringi í bæjarstjórann og biðji um framsalspappíra fyrir drenginn. 

Að fá að njóta þeirra lífsgæða að hafa slíkt menningarundur í nærsamfélagi sínu er ómetanlegt og hvet ég alla til að bera þessa heimsklassa sýningu augum. 

Sambíó

UMMÆLI