Unnið í ÚA á laugardegi til að uppfylla óskir viðskiptavina í Frakklandi

Unnið í ÚA á laugardegi til að uppfylla óskir viðskiptavina í Frakklandi

Unnið var í fiskvinnsluhúsi Útgerðarfélags Akureyringa í gær, laugardegi, til að geta staðið við gerða samninga um afhendingu afurða til viðskiptavina í Frakklandi fyrir páska. Togarinn Harðbakur EA 3 landaði í Þorlákshöfn á fimmtudaginn og stóð til að aka hráefninu norður.

Vegurinn um Vatnsskarð lokaðist hins vegar í sólarhring með þ‏eim afleiðingum að fiskurinn komst ekki til Akureyrar til vinnslu á föstudag. Því varð að grípa til þess ráðs að vinna á laugardegi til að standa við gerða samninga.

Mikil fiskneysla í aðdraganda páska

„Vegurinn lokaði fyrr en við reiknuðum með miðað við útgefnar veðurspár, sem þýddi að fiskurinn komst ekki til okkar á föstudeginum. Fiskneysla er mikil víða í Evrópu í aðdraganda páskanna og við vorum búin að skuldbinda okkur til að afhenda viðskiptavinum í Frakklandi töluvert magn af ferskum fiski á þriðjudaginn í næstu viku.

Með því að vinna í dag og koma fiskinum í flug frá Keflavík tekst okkur að standa við gerða samninga, segir Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.

Fiskvinnsluhús ÚA er tæknilega afar vel búið

Fiskurinn kominn í verslanir í Frakkalandi á þriðjudaginn

„Upp úr hádegi fer svo flutningabíll með um tuttugu tonn af ferskum þorski til Keflavíkur. Þaðan er fiskinum flogið til Frakklands, þar sem hann verður kominn í verslanir á þriðjudaginn eins og um var samið.

Þetta er virkilega góður vertíðarþorskur sem veiddur var á Selvogsbanka vestur af Vestmannaeyjum á einum sólarhring.“

Sala, veiðar, vinnsla og afhending

Gestur segir að veturinn hafi annars verið nokkuð góður, þó megi alltaf búast við ófærð og þá þurfi að leita allra leiða til að standa við gerða samninga.

„Þetta er alltaf töluvert púsluspil. Sala, veiðar, vinnsla og afhending þarfa að spila saman, þannig að hægt sé að afhenda vöruna á umsömdum tíma. Við erum með frábært starfsfólk sem alltaf er tilbúið til að leggja mikið á sig til að allir þessir þættir gangi upp,“ segir Gestur.

Guðrún Soffía Guðmundsdóttir flokksstjóri í vinnsluhúsinu

„Það mun ekki standa á okkur“

Guðrún Soffía Guðmundsdóttir flokksstjóri í vinnsluhúsinu segir að vel hafi gengið að vinna fiskinn.

„Já, já, mjög vel. Ég var mætt til vinnu klukkan fjögur í morgun til að gera allt klárt. Hérna ríkir góð stemning, allir starfsmenn eru samtaka um að sjá til þess að fiskurinn komist á markað á tilsettum tíma. Kokkurinn gerir sérlega vel við okkur á svona degi, þannig að þetta er bara líf og fjör. Það mun ekki standa á okkur hérna í ÚA til að Frakkarnir fái sinn gæðafisk fyrir páska,“ segir Guðrún Soffía.

Theodór Sölvi Haraldsson kokkur

Frétt og myndir: samherji.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó