Ný aðgerðaráætlun, sem tekur meðal annars mið af ábendinum Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra til að draga úr svifryksmengun á Akureyri, er væntanleg. Meðal annars hefur verið lagt til að hætt verði að nota sand sem hálkuvörn. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
Þar segir að Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hafi fjallað um svifryk á síðasta fundi og þar hafi verið tekin fyrir bókun heilbrigðisnefndar. Þar koma fram tillögur að aðgerðum til að sporna við svifryki sem er lýðheilsuvandamál á Akureyri.
Meðal þess sem heilbrigðisnefndin leggur til er að Akureyrarbær og Vegagerðin noti eingöngu salt/saltpækil til hálkuvarna í vetur samhliða því að átak verði gert í þrifum á götum.
„Lögð er áhersla á að upplýsa bæjarbúa um mikilvægi þess að velja naglalaus vetrardekk og að fjárfest verði í færanlegum svifryksmæli til þess að fylgjast með mengun víðs vegar bænum.Umhverfis- og mannvirkjaráð hyggst fylgja þessum ábendingum eftir. Starfsfólk bæjarins, Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirlits vinnur nú að aðgerðaáætlun til þess að lágmarka svifryk og verður hún lögð fyrir á næsta fundi ráðsins.“
Bæjaryfirvöld eru sögð telja nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að draga úr svifryki sem hefur ítrekað mælst yfir heilsuverndarmörkum á Akureyri. Undanfarna daga hafa aðstæður kallað á rykbindingu og hefur þá sjór meðal annar verið notaður á göturnar. Þegar þetta hefur verið gert er merkjanlegur munur á loftgæðum.
UMMÆLI