Fyrir viku var bæjarstjórnarfundur unga fólksins haldinn á Akureyri. Svefngæði ungmenna voru m.a. rædd á fundinum og lagt til að skólar á Akureyri hefjist seinna á morgnana. Þetta kemur fram í umfjöllun hjá N4.
Fundinn sátu fulltrúar í bæjarstjórn og svöruðu þeir hverju málefni fyrir sig sem er að sögn Telmu Ósk Þórhallsdóttur, fulltrúa í Ungmennaráði Akureyrar, mjög gagnlegt. „Við fáum beint að vita hvar málefnið stendur, hvort það sé svipað málefni í kerfinu, hvert það myndi fara, hvort það sé mögulegt og hvernig þeim lýst á hugmyndina,“ segir Telma.
Á fundinum voru níu málefni til umræðu: Tæknilæsi ungmenna, sjálfsmynd barna og unglinga, sjálfbæra skóla, hinseginleikinn, lífsleikni og jafningjafræðsla, ruslatunnumál í bænum, staða heimanáms innan skóla, svefn ungmenna og Akureyrarappið.
Þura Björgvinsdóttir vakti máls á svefngæðum ungmenna og lagði til að skólar í bænum myndu byrja klukkan 9 á morgnana. „Ég er búin að lesa mikið af rannsóknum sem sýna að unglingar ættu að sofa lengur á daginn og byrja daginn seinna,“ segir Þura. Þura og Telma Ósk voru gestir í Föstudagsþættinum á N4 og sögðu þar að þessi hugmynd hefði fengið jákvæðar undirtektir, enda á stór hluti bæjarfulltrúanna foreldrar unglinga og þekkja því málið vel af eigin raun.
Heildarumfjöllun á N4 og viðtal við Þuru og Telmu Ósk má sjá með því að smella hér.
Lesa má nánar um það sem rætt var á fundinum með því að smella hér.
UMMÆLI