Að kvöldi föstudagsins 15. september árið 1961 steig 25 ára gamall bandarískur fiðluleikari að nafni Michael Rabin á svið í Nýja Bíói á Akureyri. Rabin var enginn venjulegur hljóðfæraleikari. Hann var fiðlusnillingur af Guðs náð. Líklega má segja að Akureyringar hafi sjaldan eða aldrei, hvorki fyrr né síðar, séð hæfileikaríkari listamann stíga á stokk í bænum. Tónlistarfélag Akureyrar efndi til tónleikanna.
Dagur birti frétt um Michael Rabin og tónleika hans í Nýja Bíói í aðdraganda tónleikanna.
–
„Það er mikill og góður viðburður í tónlistarlífi bæjarins, að tekizt hefur að fá hingað frægan fiðluleikara, bandarískan. Tónleikarnir verða í Nýja bíói föstud. n.k., 15. sept., kl. 9 e. h.
Bandaríski fiðluleikarinn, Michael Rabin, er aðeins 25 ára gamall, fæddur í New York-borg 2. maí árið 1936. Eigi að síður telst hann nú meðal hinna beztu og kunnustu fiðlusnillinga vestan hafs. Hann byrjar tónlistarnám sitt 5 ára gamall og leggur þá fyrst stund á píanóleik, en 7 ára að aldri skiptir hann um hljóðfæri og tekur til að leika á fiðlu.
Hann lærði hjá Ivan Galamian, sem er mjög kunnur fiðlukennari í Ameríku og starfar bæði hjá Julliard og Curtis tónlistarskólunum. Árangurinn hefur verið hinn stórkostlegi ferill Rabins.
Aðeins 13 ára að aldri kom Rabin fyrst fram sem einleikari með hljómsveit. Hann hefur fyrir löngu síðan hlotið fullkomna viðurkenningu, sem fullþroskaður og sjálfstæður listamaður og telst meðal snillinganna á sviði fiðluleiks, sem nýtur frægðar bæði í Bandaríkjunum og utan þeirra, því fáir eða engir tónlistarmenn á hans aldri hafa ferðast jafn mikið um Bandaríkin og utan þeirra.
Miðar verða EKKI sendir heim, og eru styrktarfélagar Tónlistarfélagsins beðnir að gjöra svo vel og vitja miða sinna í dag og á morgun í Bók búð Rikku og greiða um leið gjald fyrir, sem er nokkuð hærra en venjulega, þar sem tónleikar þessir eru í sérflokki hvað kostnað snertir. Nokkrir aukamiðar verða til sölu á sama stað og við innganginn. (Frá Tónlistarfélaginu.).“
–
Stutt ævi Michael Rabin var stormasöm. Hann var á hátindi ferilsins þegar kom að tónleikunum á Akureyri. Um það leyti fór þó að halla undan fæti þegar í ljós kom að Rabin þjáðist af ofsahræðslu sem einkum beindist að ótta hans við að detta á sviðinu fyrir framan fullan sal af fólki. Lyfjanotkun þessu samfara hafði áhrif á frammistöðu hans á tónleikum. Rabin náði vopnum sínum í lok sjöunda áratugarins og virtist vera að ná fyrri getu þegar áfallið reið yfir.
Michael Rabin lést árið 1972 eftir höfuðhögg sem hann fékk þegar hann rann á gólfinu heima hjá sér. Hann var 35 ára gamall.
Með því að smella hér má sjá ótrúlegan flutning Michael Rabin á Caprice No. 5 eftir Niccolò Paganini í Carnegie Hall árið 1953, athyglisverðan útvarpsþátt frá BBC um líf og feril hans og brot úr Hollywood-kvikmyndinni Rhapsody frá árinu 1954 með Elizabeth Taylor í aðalhlutverki. Michael Rabin sá um tónlistarflutning í kvikmyndinni.
Heimild: Grenndargralið
UMMÆLI