Undirrituðu samning um nýtt úrræði í barnaverndarmálum

Undirrituðu samning um nýtt úrræði í barnaverndarmálum

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirrituðu í dag samstarfssamning um stofnun og rekstur greiningar- og þjálfunarheimilis sem ætlað er að mæta þörfum fyrir ný úrræði í barnaverndarmálum á Norðausturlandi. Þetta kemur fram á vef Akureyrabæjar í dag.

„Með úrræðinu verður hægt að styðja við allt að 12 börn og ungmenni á ári sem yrðu vistuð á greiningar- og þjálfunarheimilinu í allt að 8 vikur. Markmið með slíku úrræði er að veita inngrip til skamms tíma þegar hefðbundin úrræði duga ekki til þar sem börn og ungmenni eru vistuð utan heimilis, vandi þeirra greindur og viðeigandi þjálfun fer fram sem miðar að því að styrkja forsjáraðila í uppeldishlutverki þeirra og aðstoða börn og ungmenni með viðeigandi hætti svo þau geti snúið heim aftur,“ segir í tilkynningu bæjarins.

Leitast verður við að grípa fyrr inn í mál barna og ungmenna en áður og koma í veg fyrir að vandi þeirra vaxi og að grípa þurfi til meiri íþyngjandi úrræða, svo sem langtímavistunar fjarri heimabyggð og að börn og ungmenni fari að sýna erfiða áhættuhegðun.

Mennta- og barnamálaráðuneytið leggur 54 milljónir króna til verkefnisins og framlag Akureyrarbæjar er sambærilegt auk framkvæmdar, utanumhalds og vinnuframlags starfsmanna. Velferðarsvið Akureyrarbæjar heldur utan um verkefnið fyrir hönd Akureyrarbæjar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó