Una Margrét Heimisdóttir er 25 ára Akureyringur og margfaldur meistari í Fitness, bæði hérlendis og erlendis. Una hefur stundað fitness af miklu kappi í nokkur ár og fengum við hjá Kaffinu að forvitnast aðeins um það hvernig er að lifa svokölluðum fitness-lífstíl.
16 bikarar á 14 mótum
Una Margrét var nýverið að keppa á Bikarmóti IFBB þar sem hún hreppti tvö verðlaun þegar hún varð sigurvegari í sínum keppnisflokki sem og heildarsigurvegari. Una hefur keppt í fitness síðan á Íslandsmóti IFBB árið 2011 og hefur keppt á 14 mótum síðan þá en unnið sér inn aðeins fleiri bikara, það er 16 talsins. Í heildina hefur Una þrisvar sinnum orðið heildarsigurvegari mótsins ásamt því að vinna sinn eigin flokk.
Þegar Una er ekki að keppa í fitness er hún svo sannarlega ekki eirðarlaus en meðfram öllu þessu starfar hún í fullri vinnu sem geislafræðingur á Landsspítalanum.
Það hlýtur að reynast þrautinni þyngri að vera í 100% vinnu með miklum æfingum og ströngu mataræði. Aðspurð hvort að niðurskurðurinn sem fylgir ætíð undirbúningnum fyrir keppnir verði auðveldari með hverju skiptinu svarar Una að það sé ekki endilega svo.
,,Niðurskurður er yfirleitt frekar krefjandi þar sem það þarf að hafa gott skipulag til þess að ná settum markmiðum, það er ekki sjálfgefið að mæta á tvær æfingar á dag vera í 100% vinnu og borða nákvæmlega eins og þjálfarinn þinn segir þér. Að fara í gegnum niðurskurð krefst þess að elda og skipuleggja hvern einsta dag til þess að komast á æfingar og halda mataræði alveg 100%, því ef þú skipuleggur þig ekki þá nærðu ekki árangri í fitness, það er eitthvað sem ég get fullvissað alla um. En eitt af mínum uppáhalds setningum er „If you fail to prepare you prepare to fail“. Ég mundi ekki segja að niðurskurðarferlið sjálft hafi orðið auðveldara heldur varð ég betri, það er að segja ég þroskaðist bæði andlega og líkamlega og lærði að þekkja og komast að því hvað hentar mér best þegar kemur að niðurskurði. Margir halda líka að niðurskurður sé mun einhæfari matarlega séð heldur en hann þarf að vera, þegar ég byrjaði að keppa fyrir um 5 árum þá hélt ég að mataræði fitnesskeppanda væri bara haframjöl, grænmeti og þurr kjúklingabringa en ég hef komist að því á mínum ferli að það er hægt að gera svo ótrúlega góðan „köttvænan“ mat. En ég á t.d. fjórar mjög góðar uppskriftir af kjúklinga- og fiskiréttum sem að lang flestir gætu nýtt sér í stað þess að borða þurra kjúklingabringu og gúrku með.“
Það eru ekki endilega allir sem botna í því hvernig fitness keppendur þora að standa hálfnaktir á sviði fyrir framan fullt af fólki. Hinsvegar hlýtur það að vera nokkuð góð tilfinning þegar maður er í sínu besta formi. Una lýsir því að stíga á svið sem nokkurskonar samblandi af tilfinningum:
,,Tilfinningin er svona bland af smá stressi, sem var þó mun meira fyrst, spennu og létti. Að stíga á sviðið vitandi að þú gerðir allt 100% í undirbúningsferlinu er besta tilfinning í heimi, að vita að á því augnabliki er ekkert í boði en að njóta og hafa gaman því þú gerðir þitt besta og vonar að það verði það besta á sviðinu þann daginn.“
Á sinn árangur sjálf
Það heyrist gjarnan hávær umræða um ólöglega notkun stera eða brennsluefna þegar fólk nær jafn langt í fitnessinu líkt og Una Margrét. Þó er það vissulega háværara í karlaflokkunum. Fólk á einfaldlega erfitt með að trúa því að svona miklum árangri sé hægt að ná á eðlilegan máta. Una vísar þessu alfarið á bug í hennar tilfelli a.m.k.
,,Það er svo sannarlega hægt að ná langt án ólöglegra efna því það hef ég gert, en ég hef aldrei notað stera eða ólögleg brennsluefni og mun aldrei gera það því ég vil eiga minn árangur sjálf og vita að það var ég sem vann alla vinnuna en ekki einhver efni.“
Una er þó nokkuð viss um að einhverjir mótherjar sínir hafi notað eða notist við ólögleg efni.
Una Margrét hefur alltaf verið mjög heilbrigð stelpa og dugleg í líkamsrækt. Hún hefur iðkað þó nokkrar íþróttir í gegnum tíðina en þar má nefna fótbolta, blak og fitness. Una segir erfitt að greina úr um það hver íþróttina sé skemmtilegust, því allir séu þær mjög ólíkar.
,,Ég hef æft og keppt í fótbolta, blaki og fitness. Ég æfði blak alveg frá því að ég var 10 ára og þangað til að ég varð 21 árs minnir mig og var það ótrúlega skemmtilegur tími þar sem ég keppti á ótal mótum og spilaði einnig með unglingalandsliðum og A-landsliðinu. Ég lagði svo blakskónna á hilluna og hellti mér að fullum hug í fitnessið því mig langaði að einbeita mér að því. En ég get hreinlega ekki valið hvort var skemmtilegra, þetta eru svo ólíkar íþróttir en mér finnst fitnessið henta mér betur þar sem að það er einstaklingsíþrótt þar sem ég veit að ef eitthvað fer úrskeiðis eða gengur ekki nógu vel að þá er engum um að kenna nema sjálfri mér. En núna síðasta árið hef ég einnig verið að æfa crossfit með fitnessinu og mér finnst það æðislegt. Mér finnst ákefðin og andinn í crossfit svo frábær og mér finnst virkilega gaman hvað ég hef náð að sameina fitness og crossfit vel þar sem þessar íþróttir hafa verið frekar þekktar fyrir að vera hálfgerðar andstæður.“
Una fékk að lokum uppáhaldsspurningu allra í heiminum hugsanlega. Hvað tekur við næst?
,,Það er alltaf þessi spurning hvað á að gera næst, ég er ekki alveg búin að ákveða það en það er allavega pása frá keppni í einhvern tíma, hef ekki hugmynd um hvað lengi. Mig langar að vinna í veikleikunum mínum, setja niður ný markmið og halda áfram að njóta þess að æfa og vera heilbrigð.“
Það verður svo sannarlega gaman að fylgjast með því hvað Una tekur sér næst fyrir hendur en hún hefur sennilega bara gott af smá hvíld eftir öll þessi átök. Við óskum henni innilega til hamingju með nýjasta sigurinn, og alla þá sem á undan voru, og óskum henni góðs gengis með framhaldið!
UMMÆLI