Ummæli Orra Freys Hjaltalín, þjálfara Þórs í fótbolta, um dómgæsluna í leik Þór og Fram í gær eru til skoðunar hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Orri var óánægður með dómgæsluna í leiknum og lét það í ljós í viðtali við Fótbolti.net eftir leik.
Fram vann leikinn sem fór fram á Akureyri í gær 2-0. Guðgeir Einarsson dæmdi leikinn en Orri sagði að framkoma hans í leiknum hefði verið til skammar. Þá sagði hann að það væri „gjörsamlega galið“ að aðstoðardómari leiksins væri frá hinu liðinu á Akureyri.
„Þetta myndi aldrei vera tekið í mál í Reykjavík. KSÍ á alveg nógu mikla peninga til þess að geta fengið einhvern hlutlausan í að koma hérna og dæma þessa leiki,“ sagði Orri við Fótbolta.net.
Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar Knattspyrnusambands Íslands, sagði að ummælin væru til skoðunar. „Þetta er með ólíkindum. Það er eiginlega ekki hægt að lesa út úr þessu annað en að hann sé að saka aðstoðardómarann um að vera svindlari,“ sagði Þóroddur við Fótbolta.net.
UMMÆLI