NTC

Umhverfisráðherra segir Norðlendinga eiga hrós skilið í umhverfismálum

Umhverfisráðherra segir Norðlendinga eiga hrós skilið í umhverfismálum

Umhverfis- og loftslagsmálin hafa verið mikið til umræðu í kosningabaráttunni í ár. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, svaraði nokkrum spurningum fyrir Kaffið.is varðandi umhverfismálin á Norðurlandi. Hann segir loftslagsmálin vera stærsta umhverfis- og efnahagsmál þessarar aldar. Það sé nauðsynlegt að heiminum takist að ná tökum á loftslagsvánni og Ísland eigi að vera í fararbroddi í því samhengi.

Norðlendingar hafa sýnt frumkvæði og framsýni

Að sögð Guðmundar er margt vel gert í umhverfismálum á Norðurlandi sem önnur svæði á Íslandi geti lært af. „Ég myndi helst vilja nefna flokkun á úrgangi, og að hér er verið að búa til moltu úr lífræna úrganginum. Norðlendingar hafa líka verið leiðandi í að nýta metan frá gömlum sorphaugum á bíla og strætó. Norðlendingar hafa líka sýnt frumkvæði og framsýni í gegnum Vistorku, og Orkusetur er staðsett hér og er að gera góða hluti,“ segir Guðmundur.

Nýlega kynnti Orkusetur og Vistorka tæknilausnina KortEr sem Umhverfis- og auðlindaráðuneytið styrkti. Guðmundur segir ráðuneytið á seinustu árum einnig hafa styrkt Akureyrarbæ vegna rafmagnsvæðingar hafnarinnar, styrkt verkefni í moltugerð hjá Vistorku og bænum og styrkt verkefni sem stuðla að hringrásarhagkerfinu sem snýr að hátækniúrgangsúrvinnslu í Líforkuveri á Norðurlandi. Einnig hafi ráðneytið styrkt fráveituframkvæmdir hjá Akureyrarbæ.

„Þannig að það er fullt af spennandi hlutum að gerast hjá ykkur sem full ástæða er til að hrósa ykkur fyrir,“ segir Guðmundur Ingi.

Sjá einnig: KortEr til að fækka bílferðum

Akureyri tilvalinn staður fyrir 15-mínutna hverfið

Guðmundur segir að honum þætti gaman að sjá Akureyri stíga stór skref varðandi „15 mínútna hverfið“. „Mér þykir mjög vænt um Akureyri því ég fór í MA á sínum tíma og römm er sú taug og það allt saman. Þess vegna þætti mér óskaplega gaman að sjá Akureyrarbæ stíga stór skref varðandi hugmyndafræðina um 15-20 mínútna hverfið, þ.e.a.s. að þú sért aldrei lengur en 10 mínútur að hjóla eða ganga aðra leið til að sækja alla helstu þjónustu sem maður þarf á að halda dagsdaglega, t.d. að fara í skólann, út í búð, stunda íþróttir og fleira“.

Hann segir að 15-20 mínútna hverfi myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á sama tíma draga úr loftmengun vegna bílaumferðar og auka hreyfingu sem sé að sjálfsögðu gott fyrir heilsuna. „Ég sé fyrir mér að þetta verði alfa og ómega í loftslagsmálum sveitarfélaga á komandi árum,“ segir Guðmundur.

Uppbygging ferðaþjónustu þarf að taka mið af loftslagsmálum

Ferðaþjónustan er í miklum vexti á Akureyri og Norðurlandi. Unnið er hörðum höndum að því að fá beint flug frá útlöndum og fjöldi skemmtiferðaskipa koma að höfninni á Akureyri á hverju ári svo fátt eitt sé nefnt. Aðspurður út í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi með tilliti til umhverfismála segir Guðmundur að uppbygging ferðaþjónustu á Norðurlandi sem og annarsstaðar á landinu þurfi að taka mið af loftslagsmálum og náttúruvernd.

„Þess vegna er mikilvægt að ráðast í orkuskipti sem allra fyrst í innanlandsflugi og í skrefum fyrir utanlandsflug líka. Á meðan ekki eru komnar tæknilausnir sem leyfa full orkuskipti yfir í endurnýjanlega orkugjafa eins og rafmagn, ammoníak, vetni eða annað, þá þurfum við að stunda landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis til að bæta upp fyrir losunina,“ segir Guðmundur.

Hann segir nauðsynlegt að geta boðið strax upp á rafmagnsbíla fyrir bílaleigur, mat úr heimahéraði, nauðsynlega flokkun úrgangs og fleira sem skila sjálfbærri ferðaþjónustu.

„Varðandi skemmtiferðaskipin, þá bannaði ég notkun svartolíu í íslenskri landhelgi frá 1. janúar 2020 og engin svartolía hefur verið seld á Íslandi síðan þá sem stórbætir loftgæði í höfnum landsins og bæjum. Það er fyrsta skref hvað skipin varðar en taka þarf fleiri og stærri skref vegna olíunotkunar þeirra á næstu árum,“ segir Guðmundur Ingi að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó