Um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri

Um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri

Siguróli Sigurðsson skrifar:

Kviknaði hjá mér smá hugvekja þegar ég hlustaði á bæjarstjórnarfund og umræðu um skýrslu starfshóps um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri.

Hvað eru margir veitingastaðir á Akureyri? (Og skyndibitastaðir)

Hvað eru mörg hótel, hostel og gistiheimili á Akureyri?
… og hvað ætli vinni margir í þessum geira í bænum? Hversu mörg störf?

Hversu margir af þessum stöðum reiða sig á ferðaþjónustu og að fólk heimsæki bæjarfélagið?

Íþróttafélög í bænum standa fyrir gríðarlega mikilli ferðaþjónustu allt árið um kring.

Auðvitað stendur KA mér næst og er auðvelt að nefna hér N1-mót KA, krakkamót í blaki og badminton, júdómót, vetrarmót í fótbolta, öldungamót í blaki og síðast en ekki síst tvö krakkamót í handbolta sem draga að ferðamenn víðsvegar af landinu! (Þarna er ég ekki einu sinni að telja með alla meistaraflokksleiki sem draga hingað keppendur og stundum áhorfendur annarstaðar af landinu sem oft borða og jafnvel gista í bænum – hvað þá minni viðburði eins og strandhandbolta- og blak og fleira!)

Önnur íþróttafélög standa einnig fyrir mótahaldi: skíðamót, íshokkímót, golfmót, sundmót og ég gæti lengi talið.

Það væri gaman að sjá tölur um tilgang heimsókna til Akureyrarbæjar frá Íslendingum. Afhverju heimsækir þú Akureyri?

Það er auðvelt að benda á heimsóknartölur í sundlaugina og fjallið – eða listasafnið. En mín reynsla og innsæi segir mér að auknar heimsóknir á sérstaklega tvo fyrrnefndu staðina stafi af því að fólk er að fylgja börnum sínum á íþróttamót á Akureyri og fari í sund… borði á veitingastöðum, versli við kaupmanninn og gisti í bænum eða nágrenni hans.

Utanfrá séð er aðstaða til íþrótta á Akureyri góð. En það er eitt sem gleymist og annað sem fólk virðist loka augunum fyrir.

Það sem gleymist oft er að KA, og önnur íþróttafélög í bænum eru í bullandi samkeppni um það að halda þessi íþróttamót. Það þarf að vera góð umgjörð, góð aðstaða og gott að koma til Akureyrar til þess að geta haldið þessi mót og dregið til okkar ferðamenn. Ef við lendum á eftir, þá færast þessi mót til þeirra sem hafa aðstöðuna til að bjóða upp á þau. Lítið dæmi: KA fær ekki að halda „túrneringu“ í handbolta í 5. flokki karla og kvenna sökum aðstöðuleysis.

Það sem fólk virðist loka augunum fyrir er það að þrátt fyrir margar tilraunir til þess að koma á beinu flugi erlendis eða að gera aðkomuna að bænum fallega með brú eða flottu menningarhúsi, þá koma hingað LANG flestir ferðamenn, leyfi ég mér að fullyrða, tengdir íþróttum. Það eru mögulega skemmtiferðaskip sem koma með fleiri farþega en íþróttirnar, en oftast stoppa þeir stutt og verzla í Mývatnssveit.

Með þessum skrifum vill ég annarsvegar opna þessi lokuðu augu og rifja upp fyrir þá sem eru að gleyma.

Ps. myndin er af fyrirhugaðri uppbyggingu íþróttamannvirkja á Selfossi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó