Um auðugan garð að gresja – Forsetjaframbjóðendur svara könnun Lystigarðsins

Um auðugan garð að gresja – Forsetjaframbjóðendur svara könnun Lystigarðsins

Forsetaframbjóðendur tóku þátt í könnun Lystigarðsins á Akureyri á plöntu- og garðyrkjuþekkingu. Svörin birtust í grein á vef Lystigarðsins sem má sjá hér að neðan:

Í júlí 1981 kom frú Vigdís Finnbogadóttir í opinbera heimsókn í Lystigarðinn. Þrátt fyrir mikla rigningu þennan dag hélt Vigdís ræðu, fékk sér kökur og plantaði nokkrum trjám.

Því miður eru trén sem Vigdís gróðursetti ekki lengur til í garðinum og því datt okkur í hug að spyrja forsetaframbjóðendur um kunnáttu þeirra í garðyrkju, svona ef ske kynni að fleiri heiðurstré verði gróðursett á valdatíma þeirra.

Garðyrkjumenn eru vel þekktir fyrir að vera verklagnir, þolinmóðir og skapgóðir (kannski ekki svo mikið þegar einhver traðkar á blómunum þeirra), en vinna með plöntur hefur þessi áhrif á fólk.

Við viljum líka bæta því við að þó að Bessastaðir búi yfir náttúrufegurð myndi það ekki skaða að hafa góðan garðyrkjumann búsettan þar.

Við sendum þessa könnun á alla frambjóðendur og fengum svör frá Jóni Gnarr, Helgu Þórisdóttur, Baldri Þórhallssyni, Höllu Tómadóttur og Viktori Traustasyni. Við vonum að þú hafir gaman að lesa svörin þeirra og að þau hjálpi þér að velja í komandi kosningum.

Myndir þú líta á þig sem garðyrkjumanneskju?

Jón Gnarr: Sannarlega. Ég byrjaði ungur að vinna við garðyrkju og hef haft unun að henni síðan. Enga slökun veit ég betri en að garfa í arfa.

Halla Tómasdóttir: Nei, en ég hef undanfarin ár verið að prófa mig áfram í að rækta ýmsar matjurtir og ég tek reglulega þátt í að planta trjám, bæði hér á landi og hef einnig gert það á öðrum stöðum, m.a. Í Afríku.

Viktor Traustasson: Þegar ég vinn í görðum er ég garðyrkjumanneskja.

Helga Þórisdóttir: Já.

Baldur Þórhallsson: Ég lít á mig sem áhugagarðyrkjumann. Ég er með garð í Reykjavík sem mér finnst gott að dunda mér við að sinna. Svo hef ég einnig séð að einhverju leiti um garðinn hjá föður mínum á Ægissíðu í Rangárþingi.

Ertu með einhverjar plöntur í garðinum þínum eða í húsinu og ef þú átt, áttu þá uppáhalds plöntur?

Halla: Ég er að prófa mig áfram í ræktun matjurta með vatnsræktun og finnst það mjög gaman og gott að eiga til eigið kál og kryddjurtir.

Baldur: Ég hef dálæti af páskaliljum og finnst þær alltaf jafn yndislegur vorboði. Það er fastur liður hjá mér að setja niður vorlauka í garðinum. Þessi hefð varð ennþá skemmtilegri þegar barnabörnin mín fóru að sýna þessu áhuga með mér. Nú gerum við þetta saman. Ég reyni einnig að kaupa jólastjörnur fyrir jólin. Það má því segja að ég tengi plöntur sterkt við árstíðirnar. Á sumrin þykir mér vænt um villtu fíflana á túninu við húsið mitt sem fá að njóta sín að fyrsta slætti.

Helga: Já, ég er með mikið af rósum, það eru uppáhalds blómin mín.

Viktor: Þegar ég var barn var gullregn í garðinum við hliðina á okkur og það hefur alla daga síðan verið í miklu uppáhaldi. Í dag er það þegar reynirinn blómstrar.

Jón: Ég á nokkrar uppáhalds plöntur sem ég hef gróðursett. Ég á til dæmis beyki og garðahlyn sem að ég nostra við, vaxtamæli og tek myndir af á hverju ári.

Ertu með uppáhalds sumarblóm?

Viktor: Eru ekki öll blóm á Íslandi sumarblóm? Bláklukkurnar eru fallegar og bragðgóðar.

Jón: Ég er mjög hrifinn af fjölærum sumarblómum og hef reglulega tekið afleggjara í Hólavallakirkjugarði og gróðursett í garðinum mínum. Þetta er allt rosalega fallegt en ég hef ekki hugmynd um hvað þetta heitir.

Helga: Já, Baldursbrá.

Baldur: Páskaliljur, fíflar og fjólur.

Halla: Mér þykja sumarblómin flest falleg, en hortensía er í sérstöku uppáhaldi.

Vigdís Finnbogadóttir fær sér eitthvað að borða í heimsókn sinni í Lystigarðinn
Frú Vigdísar prófar einn af mörgum þúsundum ostapinna sem gestgjafar hennar buðu upp á  (úr myndasafn Lystigarðs)

Hver rós hefur sinn þyrni, hvaða plöntu líkar þér ekki við?

Helga: Mér líkar við öll blóm.

Viktor: Kaktusa sem eiganda dettur í hug að geyma á bakvið gluggatjöld þannig að maður stingur sig í kálfana þegar maður gengur fram hjá.

Baldur: Brenninetlur

Halla: Mér líkar í alvöru ekki illa við neina plöntu, nema þá kannski blessaðan arfann.

Jón: Mér líkar vel við allar plöntur. Stundum finnst mér tré gróðursett of nálægt húsveggjum en það er ekki við plönturnar að sakast í því.

Hver myndir þú segja að væri mikilvægasta eða áhugaverðasta plantan í íslensku flórunni?

Baldur: Ég eignaðist nýlega barnabarn sem heitir Sóley eftir það hefur plantan öðlast sérstakan stað hjá mér.

Jón: Vafalaust birkið.

Helga: Hvannarótin.

Halla: Mögulega er það melgresi, nýtt til að hefta sandfok.

Viktor: Lúpínan án nokkurs vafa, óháð því hvort fólki þyki það gott eða slæmt.

Loftslagsbreytingar eru ein af stærstu áskorunum 21. Aldarinnar og plöntur munu gegna mikilvægu hlutverki í að draga úr áhrifunum, geturðu nefnt eina leið sem þær gætu gert þetta?

Jón: Hlýnun og miklar rigningar valda aurskriðum og á Íslandi er líklega mikilvægasta hlutverk plantna að binda jarðveginn og koma með því í veg fyrir skriðurnar.

Halla: Skógrækt og endurheimt votlendis skipta máli og það gerir líka líffræðilegur fjölbreytileiki svo það er mikilvægt að einblína ekki á eina lausn og samhengi hlutanna gerir þetta verkefni flókið og því vara ég við því að farin sé ein leið – það þarf að horfa á hluta heildrænt.

Helga: Aukin skógrækt og garðyrkja vinnur gegn ójafnvægi í lofthjúpnum.

Viktor: Með því að deyja ekki og rotna.

Baldur: Ég held að það sé mikilvægt að kenna börnum frá unga aldri að umgangast plöntur og náttúruna almennt af virðingu.

Vigdís Finnbogadóttir í heimsókn á Lystigarði Akureyrar
Mikil rigning var þegar Vigdís forseti kom í heimsókn í Lystigarðinn (úr myndasafn Lystigarðs)

Vigdís Finnbogadóttir var mikill talsmaður náttúru og plantna. Sérðu þetta sem hlutverk forseta og hvernig myndir þú fara að þessu?

Viktor: Það er ekki hlutverk forseta. Það er persónulegt áhugamál sem fólk ætti ekki að þurfa álit forseta á.

Baldur: Starf Vigdísar í þágu náttúru er ómetanlegt. Það er gott dæmi um þau góðu áhrif sem forsetinn getur haft. Ég sé fyrir mér að halda þessu góða starfi Vigdísar áfram.

Halla: Ég er og verð talsmanneskja náttúrunnar, heilbrigð náttúra er okkur lífsnauðsynleg og mín lífssýn er að við myndum eina heild, maðurinn og náttúran, en það þarf að minna okkur á það. Ég hef áhuga á að vera talsmanneskja þess að efla þá tengingu, því hver manneskja sem tengir reglulega við náttúruna verður betri útgáfa af sjálfri sér.

Jón: Ég myndi tvímælalaust feta í fótspor frú Vigdísar og planta tré í hverri einustu heimsókn.

Helga: Þegar Vigdís Finnbogadóttir tók við sem forseti árið 1980, var ár trésins. Hún studdi eftirminnilega vel við þann góða málstað að gróðursetja tré allan sinn starfstíma. Ég gæti vel hugsað mér að halda því starfi áfram.

Vigdís gróðursetur tré
Með smá hjálp tekst Vigdísi að gróðursetja furutré í háhæluðum skóm – það er afrek! (úr myndasafn Lystigarðs)

Telur þú að þörfin fyrir byggingu Vatnsaflsvirkjunar vegi þyngra en þörfin á að varðveita náttúru og líffræðilegan fjölbreytileika á Íslandi?

Helga: Nei. Þess vegna á að fara leiðir við vatnsaflsvirkjanir sem valda sem minnstri röskun á náttúru Íslands.

Jón: Ég hef bent á að samkomulag manns og náttúru sé alltaf einhverskonar málamiðlun þar sem við reynum að lágmarka skaða menningar á náttúruna og umgöngumst hana af virðingu og kærleika.

Viktor: Ég tel að mitt álit skipti þar ekki máli og að slíkar ákvarðanir ættu sem mest að vera teknar af nær samfélaginu sem býr í þeirri náttúru.

Halla: Þarna tel ég mikilvægt að gæta góðs jafnvægis. Það er ekki í þágu náttúrunnar að við stígum skref til baka með notkun jarðefniseldsneytis.

Vigdís Finnbogsdóttir ávarpar samkomuna af meira en 2000 manns þann dag í Lystigarðinum.
Vigdís Finnbogsdóttir forseti ávarpar samkomuna af meira en 2000 manns þann dag í Lystigarðinum (úr myndasafn Lystigarðs).

Hver er þín uppáhalds garður eða staður úti í náttúrunni á Íslandi?

Jón: Skrúður í Dýrafirði á sérstakan stað í hjarta mínu.

Halla: Á svo ótalmarga uppáhalds garða og staði í íslenskri náttúru. Til gamans má geta að við héldum alla undirbúningsfundi fyrir stofnun Auðar Capital í grasagarðinum í Laugardalnum, og þangað fer ég oft í göngutúra. Ég heimsótti nýlega Lystigarðinn á Akureyri sem mér finnst einstaklega fallegur. Og ef ég verð að velja einn uppáhaldsstað í villtri náttúru þá kemur Þórsmörk fyrst uppí hugann.

Viktor: Kólonsbotn.

Baldur: Heimabærinn Ægissíða við Rangárbakka og Þingvellir að hausti til.

Helga: Við hjónin höfum lagt mikla rækt við garðinn okkar. Erum búin að gróðursetja tugi fallegra tegunda sem við erum stollt af, m.a. silfurhnappa, eryngium og purpurabrodd.

Ertu með einhver uppáhalds garðverkfæri og ef svo er, hvað er það?

Viktor: Litla mjóa skóflan vegna þess að hún virkar líka þegar þarf að hreinsa upp úr þakrennum.

Helga: Lítil handskófla, sem hjálpar mér við illgresið.

Halla: Góðir hanskar.

Jón: Skófla er mitt uppáhalds garðverkfæri. Ég veit eiginlega ekkert skemmtilegara en að moka með skóflu og ætti eiginlega að eiga Titanium skóflu.

Ef þú ert sammála því að það sé skortur á menntunarmöguleikum fyrir þá sem vilja læra um og vinna við plöntur á Íslandi, hvernig myndir þú taka á þessu vandamáli?

Halla: Mér þætti áhugavert að ræða “ræktun” sem valkost í námi og tel að öll hefðum við gott af því.

Jón: Með því að auka meðvitund og upplýsingar um gildi garðyrkju á Íslandi.

Helga: Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér menntunarmöguleika á þessu sviði.

Viktor: Ég er ekki sérfræðingur í þeim málum og ég held að það séu stofnanir sem eru betri til þess fallnar en embætti forseta Íslands.

Mynd af Bessastöðum
Nokkur sumarblóm og íslenskt birki gætu hentað lóðinni á Bessastöðum (mynd frá forseti.is)

Einhverjar aðrar athugasemdir um plöntur sem þú vilt koma fram?

Helga: Hvað kom fyrir trén hennar Vigdísar?

Viktor: Þær koma til með að erfa jörðina.

Jón: Það mætti vera mun skipulagðri skógrækt og landgræðsla en þegar er.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó