Gæludýr.is

Um 88% íbúa eru ánægð með að búa á Akureyri

Um 88% íbúa eru ánægð með að búa á Akureyri

Í nýrri könnun sem Gallup gerði á þjónustu sveitarfélaga kemur fram að 88 prósent íbúa eru ánægð með að búa á Akureyri. Mest ánægja mælist með sorphirðu, umhverfismál, aðstöðu til íþróttaiðkunar, þjónustu grunnskóla og þjónustu sveitarfélagsins almennt. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef bæjarins í dag.

Óánægju gætir helst þegar spurt er um skipulagsmál, þjónustu við eldri borgara, barnafjölskyldur og fatlaða. Heilt yfir hafa litlar breytingar orðið á milli ára en mestar breytingar eru á viðhorfum til þjónustu grunnskóla sem eru jákvæðari nú en áður og þótt 36% segist frekar eða mjög óánægð með skipulagsmálin þá er það nokkru minna en árið áður þegar 42% kváðust vera frekar eða mjög óánægð. Þess má geta að mest hefur óánægja með skipulagsmál á Akureyri mælst á árunum 2008-2010 þegar allt að 54% bæjarbúa sögðust vera frekar eða mjög óánægð með þann málaflokk.

Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Um netkönnun var að ræða og byggt er á 421 svari frá Akureyri.

Niðurstöður könnunarinnar má skoða hér.

Niðurstöðurnar voru kynntar í bæjarráði 8. febrúar sl. þar sem samþykkt var eftirfarandi bókun:

Bæjarráð telur mikilvægt að fá fram viðhorf bæjarbúa til þjónustu sveitarfélagsins og þakkar þátttakendum fyrir mikilvægt framlag. Bæjarráð beinir því til sviða og ráða að taka niðurstöður könnunarinnar til umfjöllunar og úrvinnslu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó