Um 20 ungmenni í ritlistasmiðjuMynd: Aðalbjörg Bragadóttir /Akureyri.is

Um 20 ungmenni í ritlistasmiðju

Ritlistasmiðja Ungskálda fór fram í VMA á laugardaginn. Um 20 ungmenni sátu smiðjuna og nutu leiðsagnar rithöfundanna Gunnars Helgasonar og Kamillu Einarsdóttur.

Næst á dagskrá Ungskálda 2022 er ritlistakeppnin en búið er að opna fyrir innsendingar. Síðasti skiladagur er 16. nóvember nk.

Í framhaldi af ritlistakeppninni verður kaffihúsakvöld Ungskálda haldið á LYST í Lystigarðinum þriðjudagskvöldið 6. desember kl. 20. Kvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist. Frábært tækifæri til að hitta önnur skáld, kynnast verkum þeirra og jafnvel lesa upp sín eigin verk. Kaffi, kakó og kökur í boði fyrir gesti.

Og fimmtudaginn 8. desember kl. 17 tilkynnir dómnefnd úrslit í ritlistasamkeppni Ungskálda 2022 í Amtsbókasafninu á Akureyri.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem gengur út á að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára. Verkefnið hófst árið 2013 og það eina sinnar tegundar á landinu. Staðið er fyrir ritlistakeppni þar sem veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að vera á íslensku.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

Allar nánari upplýsingar á ungskald.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó