beint flug til Færeyja

Um 1800 manns heimsóttu Hof síðastliðinn sunnudag

Um 1800 manns heimsóttu Hof síðastliðinn sunnudag

Sunnudagurinn 24. nóvember var viðburðaríkur í Hofi en samkvæmt talningu voru 1740 manns sem gengu inn um aðaldyr hússins. Sé rennsli um aðrar dyr teknar með inn í talninguna má áætla að rúmlega 1800 einstaklingar hafi heimsótt Hof þennan fallega vetrardag. Þetta kemur fram á vef Menningarfélags Akureyrar.

Jólailmur er jólamarkaður sem haldinn er ár hvert í Hofi og var þennan sunnudag boðið upp á fjölbreyttan varning tengdan jólunum beint og óbeint. Mói Bistro bauð upp á jólaglögg og gúmmelaði og jólatónlist ómaði um húsið. Var þessi undanfari aðventunnar kærkominn viðbót við jólasnjóinn sem nú umlykur Akureyri.

Stórviðburðurinn Boléro var sama dag í Hofi og var nær húsfyllir í Hamraborg þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flutti fjögur verk og frumflutti þar af tvö íslensk verk, annað eftir Snorra Sigfús Birgisson og hitt eftir Daníel Bjarnason sem einnig stýrði hljómsveitinni. Greta Salóme sem nýverið eignaðist sitt annað barn flutti einnig einn flóknasta fiðlukonsert tónlistarsögunnar með aðstoð Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Standandi lófaklapp bergmálaði um salinn að loknum tónleikum.

Um helgina slær ekki slöku við í Hofi.

Steps dancecenter er með 2 uppseldar jólasýningar á laugardeginum og tónlistarkonan GDRN flytur nokkur jólaleg jólalög við undirspil Magnúsar Jóhanns á laugardagskvöldinu.

Á sunnudeginum er það svo jólatónleikarnir Jólaljós og lopasokkar sem verða í Hamraborg en þar eru það Óskar Pétursson, Króli, Guðrún Gunnarsdóttir, Jónína Björt ásamt fleirum sem ætla að koma áhorfendum í kærkomið jólaskap á fyrsta degi aðventunnar.

VG

UMMÆLI