Gæludýr.is

Um 10.000 manns á leiðinni til Akureyrar á N1-mótið -Keppendur aldrei verið fleiri

Mynd tekin á N1-mótinu í fyrra þegar 182 lið tóku þátt. Í ár eru þau 188 talsins.

N1-mót KA er eitt stærsta fótboltamót landsins, en það verður haldið dagana 4.-7. júlí n.k. Helgin er jafnframt orðin ein stærsta ferðahelgi Akureyrar en í ár hefur mótið aldrei verið stærra, þar sem von er á um 10.000 manns í aðdraganda mótsins. Alls keppa 188 lið í ár frá 43 félögum víðsvegar um landið, en aldrei hafa verið jafn mörg lið og nú. Í heildina er von á um 1900 keppendum til Akureyrar í fylgd með fjölskyldum sínum og því verður fjölmennt í bænum þessa fyrstu viku júlímánaðar.

Ein tekjuhæsta vika ársins hjá fyrirtækjum á Akureyri
Þetta er í þrítugasta og annað skipti sem mótið er haldið en síðan þá hefur mótið vaxið gríðarlega hratt, sérstaklega undanfarin ár og er nú orðið einn stærsti viðburður sumarsins á Akureyri. Sævar Pétursson, mótsstjóri, segir mótið hafa mjög jákvæð áhrif á Akureyri í heild sinni og þá ekki síst á fyrirtæki bæjarins. „Ég held að þetta hafi gríðarlega góð áhrif á mörg fyrirtæki hér á Akureyri. Margir eru að koma hingað á þriðjudegi og fara heim á sunnudegi.  Fyrirtæki tala um það að þetta sé orðin tekjuhæsta vikan þeirra á árinu vegna fjölda þeirra ferðamanna sem koma norður þessa daga,“ segir Sævar.

Gríðarlegur fjöldi sjálfboðaliða gerir þetta mögulegt
Sævar segir mótin hafa gengið mjög vel fyrir sig síðustu ár, en það væri ekki mögulegt nema fyrir tilstilli fjölda sjálfboðaliða. Þá er umgjörðin kringum mótin svipuð ár eftir ár en breytist alltaf eitthvað milli ára. „Það eru mörg hundruð sjálfboðaliðar sem koma að því að láta N1-mótið okkar ganga upp. Það tekur sinn tíma að elda mat fyrir 2.000 manns þrisvar á dag t.d. En svona styrkja sjálfboðaliðarnir félagið sitt, og í raun og veru allt atvinnulíf á Akureyri með því að halda hér eitt flottasta mót landsins,“ segir Sævar ánægður með þá sem koma að mótinu á hverju ári.

Rifja upp gamla takta í knattspyrnu á Pollamótinu
Þessa sömu helgi stendur íþróttafélagið Þór, í samstarfi við Icelandair, fyrir Pollamótinu en það er haldið á hverju ári í byrjun júlí. Mótið hefst á föstudagsmorgni og lýkur með lokahófi á laugardagskvöldinu. Á mótinu taka þátt kempur kvenna og karla í aðeins eldri aldurshópum og rifja upp gamla takta í knattspyrnu. Mótið fer fram á Íþróttasvæði Þórs við Hamar en nú þegar hafa 42 lið skráð sig á mótið og búist er við í kringum 500 keppendum.

Gamlir knattspyrnumenn og konur spreyta sig árlega á Pollamótinu þar sem eina markmiðið er að skemmta sér sem best. Mynd: Palli Jóh.

Stuðmenn fyrir polla og Frikki Dór fyrir pjakka
Þó að helgin, og í raun vikan öll, sé helguð fótbolta þá er utanvallarskemmtunin aldrei langt undan. Fyrir keppendur á N1-mótinu og aðstandendur þeirra verða tónleikar í Íþróttahöllinni á föstudeginum þar sem Frikki Dór, Áttan, Jói P og Króli munu skemmta gestum. Heimsmeistaramótið í knattspyrnu verður enn í fullum gangi og leikirnir verða því sýndir í íþróttahúsinu á stórum skjá meðan á mótinu stendur. Fyrir eldri íþróttamenn og konur helgarinnar, sem og alla Akureyringa, verður heljarinnar lokahóf Pollamótsins á laugardagskvöldinu þar sem Stuðmenn koma til með að spila í Boganum á hinu árlega Pollamótsballi sem er opið öllum.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó