NTC

Ullblekill braust í gegnum umferðareyjuLjósmynd: Kaffið/RFJ

Ullblekill braust í gegnum umferðareyju

Síðastliðinn þriðjudag rak fréttaritari upp stór augu þegar leið hans lá um gatnamót Hlíðar- og Hörgarbrauta á Akureyri. Þar hafði stór sveppur sprottið upp undan umferðareyju með slíkum krafti að hann hafði rutt steyptum hellunum til hliðar og unnið skaða á malbikinu í kring.

Þegar mynd af sveppnum var sett inn á Facebook-hóp fyrir íslenska sveppaunnendur vakti hún mikla lukku og virtist sveppafrótt fólk sammála að um ullblekil (Coprinus comatus) væri að ræða.

Á heimasíðu Náttúrufræðistofnun Íslands segir eftirfarandi um ullbelkil: „Vex í alls konar landi sem hefur verið raskað af manna völdum, svo sem í trjágörðum og grasflötum í þéttbýli og þó einkum í vegaköntum hérlendis, kemur jafnvel upp úr akbrautum, sem lagðar hafa verið malbiki og á það til að lyfta upp gangstéttarhellum (Helgi Hallgrímsson óútgefið).“ Þar segir einnig að þó svo að ullblekill sé fínasti matsveppur sé það ekki sniðugt að leggja sér til matar sveppi sem finnast á fjölförnum götum líkt og þessum vegna hættu á mengun.

Þessi mynd var tekin í dag. Svo virðist sem sveppurinn hafi verið brenndur til þess að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Ummerki hans eru þó enn auðsjáanleg.
Sambíó

UMMÆLI