NTC

Tvíþættur vandi

Alfa Dröfn Aradóttir. Mynd: Daníel Starrason.

Það er skylda okkar að gera allt sem í valdi okkar stendur til að koma í veg fyrir að ungmenni lendi í vanda. Það er stórt og flókið samfélagsverkefni sem ætti alltaf að vera í brennidepli hjá okkur öllum, ekki bara núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Öll ungmenni eiga að hafa möguleika á heilbrigðum uppvexti og það þurfa að vera til úrræði þegar þau þurfa á þeim að halda. Við þurfum horfast í augu við þá staðreynd að úrræði fyrir ungt fólk í vanda eru af skornum skammti og Akureyri er þar ekki undanskilin þó hér sé margt vel gert. Það er lífsnauðsynlegt að til séu meðferðarúrræði fyrir unga fíkla hér í bænum.

Meirihluti ungmenna sem greind eru með fíknisjúkdóm þjást einnig af geðrænum vandamálum. Kvíði, þunglyndi og aðrar raskanir sem börn þjást af auka líkur á seinni tíma fíkniefnanotkun. Einstaklingur sem greindur er með með bæði fíknisjúkdóm og geðsjúkdóm, telst vera með tvíþættan vanda. Staðreyndin er sú að ungmenni sem glíma við tvíþættan vanda eru ólíklegri að ná árangri í meðferð en þau ungmenni sem einungis glíma við annan vandann og það getur verið gríðarlega erfitt að meðhöndla vanda þar sem skilin milli orsaka og afleiðinga eru óljós. Afleiðingar þessa tvíþætta vanda eru alvarlegar og geta haft djúp áhrif á líf og framtíð þeirra ungmenna sem þjást af honum, líkamleg, andleg og félagsleg. Þau meðferðarúrræði sem eru í boði vinna einungis með annan vandann í einu og aðskilja því sjúkdóminn sjálfan, sem þó er tvíþættur. Það er nauðsynlegt að til sé meðferðarúrræði sem tekst á við hvort tveggja, fíknisjúkdóminn og geðræna vandann, á sama tíma. Samþætt meðferðarúrræði er ekki til staðar á Akureyri og úr því þarf að bæta.

Þá má sérstaklega nefna að í meginmarkmiðum samþykktrar geðheilbrigðisstefnu ríkisins stendur að þjónusta við einstaklinga með geðraskanir eigi að vera samþætt og samfelld, að uppeldisskilyrði barna eigi að stuðla að vellíðan þeirra og að fólki sé ekki mismunað á grundvelli geðheilsu. Í aðgerðaráætlun geðheilbrigðisstefnu ríkisins stendur enn fremur að megináhersla verði lögð á samþættingu þjónustu við fólk með geðheilsuvanda og á geðrækt og forvarnir með sérstakri áherslu á börn og ungmenni. Þetta er nauðsynlegt að virkja innan sveitarfélaganna.

Alfa Dröfn Aradóttir, 9. sæti á lista Vg

VG

UMMÆLI

Sambíó