Akureyrski glímuklúbburinn Atlantic Jiu Jitsu sendi sex keppendur á Íslandsmeistaramót í „No-Gi“ uppgjafarglímu sem fram fór í Reykjavík um helgina. Fjögur þeirra sem héldu suður snéru heim með medalíur, þar af tvö gull. Í þessari íþrótt er fullorðnum keppendum skipt niður í flokka eftir þyngd og beltum, en mismunandi lituð belti tákna mismikla reynslu í íþróttinni. Árangur keppenda frá Atlantic var eftirfarandi:
Kristína Marsibil Sigurðardóttir vann gull í undir 60 kílóa flokki kvenna með blá og fjólublá belti.
Tumi Briem vann gull í undir 70 kílóa flokki unglinga.
Andrea Hreinsdóttir vann silfur í undir 75 kílóa flokki kvenna með hvít belti.
Friðgeir Sverrisson vann brons í undir 76 kílóa flokki karla með blá og fjólublá belti.
Samir Jónsson og Lárus Stefánsson kepptu líka fyrir hönd Atlantic en tókst ekki að komast á pall í þetta sinn. Þeir snúa heim reynslunni ríkari.
Um er að ræða mót í brasilískri uppgjafarglímu (Brazilian Jiu-Jitsu eða BJJ) og vísar No-Gi til þess að keppt er án gallans, sem kallast gi. Kaffið hefur áður fjallað um brasilíska uppgjafarglímu og má finna nákvæma lýsingu á hvernig íþróttin fer fram í þeim greinum.
UMMÆLI