NTC

Tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri í dag

a-mynd
Laugardaginn 29. október kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu á Akureyri: Sýning Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur, Sýn í þokunni, og sýning bandarísku listakonunnar Joan Jonas, Eldur og saga, 1985.

Joan Jonas (f. 1936) er frumkvöðull á sviði vídeó- og gjörningalistar og einn þekktasti myndlistarmaður samtímans. Hún starfar enn ötullega að sköpun nýrra verka, nú um fimmtíu árum eftir að hún hóf að sýna verk sín í heimaborginni New York í Bandaríkjunum. Jonas hefur haft víðtæk áhrif á samferðamenn sína, verk hennar hafa verið sýnd í helstu listasöfnum heims og hún hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna. Hún var fulltrúi Bandaríkjanna á Feneyjatvíæringnum árið 2015.

Joan Jonas kom til Íslands á níunda áratug liðinnar aldar og skilaði áhrifunum af þeirri heimsókn í verkinu Volcano Saga, frásagnarmyndbandi þar sem Tilda Swinton fer með hlutverk Guðrúnar Ósvífursdóttur í heitri laug umluktri hrjóstrugu eldfjallalandslagi. Þessi nána vísun í Laxdælu og drauma Guðrúnar, sem rekur sig eftir verkinu eins og rauður þráður, var forleikur að frekari verkum Jonas byggðum á íslenskum bókmenntum, fornum og nýjum. Sunnudaginn 30. október kl. 15 verður listamannaspjall með Joan Jonas í Listasafninu á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.

Íslandstengd verk Joan Jonas eru nú sýnd í fyrsta sinn á Íslandi en sýningin Reanimation detail var opnið í Listasafni Íslands á miðvikudaginn. Sýningarnar eru unnar í samstarfi Listasafns Íslands og Listasafnsins á Akureyri. Sérstakir styrktaraðilar eru Safnráð og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi.

Sýn í þokunni

Ásdís Sif Gunnarsdóttir (1976) hefur vakið athygli fyrir vídeó innsetningar, ljósmyndaverk og gjörninga. Auk þess að sýna á Íslandi hefur hún sýnt víða erlendis, tekið þátt í fjölda samsýninga og unnið vídeóverk á internetinu. Það er því engin tilviljun að hún setji upp sýningu á nýjum verkum í Listasafninu á Akureyri á sama tíma og Joan Jonas. Líkt og í verkum Jonas er sterkur kvenlegur undirtónn í verkum Ásdísar Sifjar sem oft er settur fram á ljóðrænan hátt og af tilfinninganæmi. Frásagnir, lífsreynsla og ferðalög konu eru í forgrunni.

Ásdís Sif útskrifaðist með BFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 2000 og MA-gráðu frá University of California í Los Angeles 2004. Hún heldur Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi, þriðjudaginn 25. október kl. 17-17.40, undir yfirskriftinni Innsetningar og útsetningar í rauntíma, úti og inni og í gegnum net. Ókeypis aðgangur.

Sýningarstjóri sýninganna tveggja í Listasafninu á Akureyri er Hlynur Hallsson og þær standa báðar til 8. janúar 2017. Opnunartími er þriðjudaga – sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýningar Listasafnsins er alla fimmtudaga kl. 12.15-12.45. Ókeypis aðgangur.

Sambíó

UMMÆLI