Laugardaginn 7. desember kl. 15 verða opnaðar tvær sýningar í Listasafninu á Akureyri. Annars vegar sýning Marzena Skubatz, HEIMAt, og hins vegar sýning á verkum Elínar Pjet. Bjarnason, Handanbirta / Andansbirta – valin verk úr safneign Listasafns ASÍ.
„Ísland leitar að verkafólki til starfa í sveitum landsins.“ Svo hljóðaði auglýsing frá íslenska konsúlatinu í Þýskalandi 1949. Um það bil 900 umsækjendur svöruðu auglýsingunni og þann 5. júní 1949 sigldu um 280 konur og 79 karlar með Esjunni áleiðis til Íslands. Margar þýskar konur dvöldu lengur en til stóð og hófu jafnvel nýtt líf á Íslandi. Marzena Skubatz fór á slóðir þeirra kvenna úr þessum hópi sem enn eru á lífi og tók ljósmyndir fyrir verkefnið HEIMAt. Útkoman er ljóðrænt verk þar sem minningar og að festa rætur á nýjum stað eru kjarninn.
Marzena fjallar á táknrænan og marglaga hátt um landið, konurnar og sögu þeirra. HEIMAt er ferðalag í ljósmyndum sem fer með okkur frá fortíð til samtíðar. Fjölmargir þættir tilverunnar koma við sögu í verkinu, s.s. ást, áföll, fortíðarþrá og gleymska. Einnig er hið ósagða dregið fram – þó án þess að farið sé of náið út í smáatriði.
Þýski listamaðurinn Marzena Skubatz fæddist í Póllandi 1978. Hún lauk Diploma-námi í ljósmyndun frá University of Applied Sciences og hafa verk hennar verið sýnd víðs vegar um heiminn. Meginviðfangsefni hennar í listinni er fylgnin milli sjálfsvitundar mannsins og staða.
Sýningin er sett upp í samvinnu við þýska sendiráðið á Íslandi.
Elín Pjet. Bjarnason (1924 – 2009) fæddist á Íslandi, ólst upp á Akureyri en bjó í Kaupmannahöfn frá 21 árs aldri til dauðadags. Hún nam myndlist við Listaháskólann í Kaupmannahöfn; fyrst málaralist hjá Vilhelm Lundstrøm, 1945-1950, síðan veggmyndagerð hjá Elof Risebye, 1958-1959, og að lokum grafík hjá Holger J. Jensen 1962. Elín tók reglulega þátt í samsýningum í Kaupmannahöfn, en sýndi aðeins einu sinni í Reykjavík; það var ásamt Vigdísi Kristjánsdóttur vefara árið 1968. Fyrsta einkasýningin á verkum hennar var haldin í Listasafni ASÍ 2011.
Listasafn ASÍ geymir um 550 verk Elínar; málverk, teikningar, grafík og freskur. Sýningin í Listasafninu á Akureyri er samstarfsverkefni safnanna tveggja og þar verða sýnd nokkur valin verk úr safninu sem systursynir listakonunnar, Pjetur Hafstein Lárusson og Svavar Hrafn Svavarsson, færðu Listasafni ASÍ að gjöf eftir fráfall hennar 2009.
Sýningarstjóri: Aðalsteinn Ingólfsson.
UMMÆLI