Tvær opnanir í Listasafninu á laugardaginn

Tvær opnanir í Listasafninu á laugardaginn

Laugardaginn 29. ágúst kl. 12-22 verða opnaðar tvær sýningar í Listasafninu á Akureyri. Annars vegar yfirlitssýning á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar, Lengi skal manninn reyna, og hins vegar sýning Lilýjar Erlu Adamsdóttur, Skrúðgarður. Í tilefni af 158 ára afmæli Akureyrarbæjar og vegna Covid-19 verður Listasafnið opið til kl. 22 á opnunardaginn og enginn aðgangseyrir.

Þorvaldur Þorsteinsson var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla í listsköpun. Auk þess að fást við myndlist samdi hann skáldsögur, leikrit, ljóð og tónlist og varð landsþekktur fyrir Vasaleikhúsið sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1991 og síðar sýnt í sjónvarpi. Skáldsaga hans, Skilaboðaskjóðan, sló einnig rækilega í gegn þegar hún kom út 1986 og var síðar færð í leikbúning og sýnd í Þjóðleikhúsinu sem söngleikur 1993. Fjórar bækur Þorvaldar um Blíðfinn hafa verið þýddar á fjölda tungumála og Borgarleikhúsið setti upp leikrit hans And Björk of Course 2002. Hann hélt margar einkasýningar, jafnt á Íslandi sem erlendis, og tók þátt í alþjóðlegum samsýningum víða um heim.

Þorvaldur hefði orðið sextugur þann 7. nóvember 2020. Af því tilefni efnir Listasafnið til málþings á fæðingardegi hans, þar sem fjallað verður um ævi hans og áhrif. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Hafnarborgar í Hafnarfirði, en þar verður hún sett upp snemma árs 2021.

Lilý Erla Adamsdóttir vinnur á mörkum myndlistar, hönnunar og listhandverks. Yfirborð er henni hugleikið, hvort sem um ræðir yfirborð náttúrunnar eða mennskunnar. Í verkum sínum skoðar hún handgerða endurtekningu, möguleika hennar og takmarkanir. Hvernig hið einstaka kallast á við fjöldann um leið og fjöldinn skapar einstakan samhljóm. Vinnuferli Lilýjar einkennist af stöðugu samtali við efnið, þar sem eitt leiðir af öðru. Undanfarið hefur hún nýtt sér eiginleika tufttækninnar til skoðunar á þræðinum og sjónrænna áhrifa hans, þegar kemur að samspili lita og efniseiginleika. Lilý talar ýmist um verkin sín sem loðin málverk eða dansandi útsaum.

Lilý Erla Adamsdóttir (f. 1985) lauk BA gráðu í myndlist frá LHÍ 2011 og MA gráðu í listrænum textíl frá Textilhögskolan í Borås í Svíþjóð 2017.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó