A! Gjörningahátíð

Tuttugu festust í Fjarkanum í Hlíðarfjalli

Tuttugu festust í Fjarkanum í Hlíðarfjalli

Klukkan 13:38 barst lögreglunni tilkynning um að skíðalyfta í Hlíðarfjalli, Fjarkinn, hafi stöðvast og að um 20 einstaklingar væru fastir í lyftunni. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitarinnar Súlur við að koma fólkinu úr lyftunni. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar.

„Aðgerðarstjórn var virkjuð. Lögregla, sjúkralið og björgunarsveit var boðuð á vettvang og strax hafist handa við að koma fólkinu úr lyftunni. Fljótlega kom í ljós að bilunin í lyftunni stafaði af því að vír hafði losnað úr spori sínu og lyftan stöðvast við það. Ekki er vitað til þess að neinn hafi slasast og ekki talin hætta á að það muni gerast. Þegar þetta er skráð er búið að ná nokkrum niður úr lyftunni og vinna í gangi við að ná þeim sem eftir eru. Þeir fá svo skoðun hjá heilbrigðisstarfsfólki,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Klukkan korter yfir þrjú var búið að bjarga öllum úr lyftunni óslösuðum. Þó var fólki orðið ansi kalt. Í tilkynningu lögreglunnar segir að björgunarstarf hafi gengið mjög vel og lögreglan þakkar öllum sem komu að aðgerðinni.

VG

UMMÆLI