Tryggvi Snær annar í vali á körfuknattleiksmanni ársins

Tryggvi Snær Hlinason framherji Valencia á Spáni varð í öðru sæti í kjöri á körfuknattleiksmanni ársins en frá þessu segir á vef KKÍ í morgun. Körfuknattleikskarl og kona ársins eru valin í kosningu af stjórn, starfsmönnum og afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum allra landsliða KKÍ í verkefnum á árinu 2017. Það voru þau Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir sem enduðu í fyrsta sæti hvorum megin.

Hér fyrir neðan má sjá umsögn KKÍ um Tryggva.

Tryggvi Snær Hlinason – Valencia (Spánn)
Bárðdælingurinn hávaxni hefur sýnt það og sannað hversu miklum framförum hann hefur tekið á skömmum tíma, í ljósi þess að hann byrjaði að æfa körfubolta árið 2014. Tryggvi Snær er orðinn eitt mesta efni íslenska landsliðsins og framtíðar leikmaður af ungu kynslóðinni en Tryggvi er fæddur 1997. Tryggvi var í U20 ára liði Íslands sem náði 2. sætinu í B-deild Evrópumótsins sumarið 2016 og lék með U20 ára liðinu í fyrsta sinn í sögu KKÍ í A-deild síðastliðið sumar, þar sem liðið hafnaði í 8. sæti af 16 liðum. Tryggvi stóð sig gríðarlega vel og var valinn í fimm manna úrvalsliðið í mótslok, fyrstur íslendinga í sögunni. Hann leiddi mótið í framlagi bæði eftir riðlakeppnia og í mótslok eftir úrslitakeppnina með 25.6 framlagstigum að meðaltali og flest varin skot í leik (3.1). Þá var hann þriðji frákastahæsti maður mótsins með 11.6 í leik að meðaltali. Tryggvi Snær samdi við Valencia á Spáni fyrir sumarið til þriggja ára þar sem hann æfir og keppir með Spánarmeisturunum í bestu deild Evrópu og leikur með þeim einnig í EuroLeague, meistadeild körfunnar og hefur verið að fá stærra og stærra hlutverk að undanförnu.

 

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó