Framsókn

Truflun í drefingarkerfi Landsnets lokið – Rafmagn komið aftur áÁhrifasvæði rafmagnstruflana dagsins. Ljósmynd: RARIK

Truflun í drefingarkerfi Landsnets lokið – Rafmagn komið aftur á

Líkt og Kaffið greindi frá varð truflun á flutningskerfi Landsnets vegna útleysingar hjá Norðuráli um klukkan 12:25 í dag. Landsnet og RARIK unnu að greiningu á trufluninni og uppbyggingu kerfisins. Uppbygging gekk sýnilega hratt fyrir sig, því samkvæmt tilkynningu Landsnets klukkan 14:09 er trufluninni nú lokið og eru allir notendur komnir með rafmagn á ný.

Áhrifa af trufluninni gætti víða og rafmagnslaust varð frá Glerárskógum á Vesturlandi, á Norðurlandi og austur á firði. Kortið hér að ofan sýnir áhrifasvæði bilunarinnar. Ekki varð rafmagnslaust á öllu svæðinu sem kortið sýnir heldur gætti þar áhrifa frá höggi í flutningskerfinu og t.d. eyðilögðust mælar og heimilistæki í einhverjum tilfellum. Verst urðu áhrifin á svæðinu frá Búðardal og austur að Vopnafirði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem RARIK sendi frá sér á öðrum tímanum í dag.

Í fréttatilkynningu RARIKS var að finna eftirfarandi ráðlagningar um hvernig skuli búa sig undir hugsanlegt rafmagnsleysi:

Þegar búast má við rafmagnstruflunum er ráðlegt að slökkva á þeim rafmagnstækjum, sem slökkva ekki á sér sjálf þegar rafmagni slær út og sem geta valdið tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Þetta á meðal annars við um eldavélar og fleiri hitunartæki en einnig er ráðlegt að slökkva á viðkvæmum tækjum á borð við sjónvörp. Þá hefur reynst mörgum vel að eiga vasaljós að grípa til því farsímaljós eru fljót að tæma farsímarafhlöður. RARIK minnir einnig á að rafmagnsleysi getur haft áhrif á fjarskipti og ýmsa þjónustu sem er háð rafmagni.

Uppfærsla klukkan 16:25:

Eftirfarandi fréttatilkynning barst frá RARIK snemma á fimmta tímanum í dag:

Allir viðskiptavinir RARIK ættu að vera komnir með rafmagn eftir stóra truflun sem varð í flutningskerfi Landsnets vegna útleysingar hjá Norðuráli fyrr í dag. Rafmagn var komið á í öllu dreifikerfi RARIK rétt eftir klukkan 14 í dag. Gert er ráð fyrir að rúmlega 15.500 heimili og fyrirtæki á dreifisvæði RARIK hafi orðið fyrir rafmagnsleysi eða verulegum rafmagnstruflunum í 1-2 klukkustundir.

Rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi í dreifikerfi RARIK urðu á svæðinu frá aðveitustöð á Glerárskógum á Vesturlandi, á öllu Norðurlandi og á Austurlandi til og með aðveitustöðvar RARIK á Eyvindará. Einnig leysti út útgangur frá aðveitustöð á Höfn sem fæðir Suðursveit.

Mikið högg kom á allt kerfið og vegna þess að ekki leysti út á Mývatni er ljóst að þar hefur orðið nokkurt tjón á búnaði. Viðskiptavinir RARIK sem urðu fyrir tjóni af völdum rafmagnstruflana eru hvattir til að senda inn tilkynningu í gegnum vef RARIK á  www.rarik.is/tjon.

Viðskiptavinir RARIK sem enn finna fyrir rafmagnsleysi eru hvattir til að kanna hvort að lekaliði hafi leyst út hjá sér og ef það er ekki orsökin að hafa samband við RARIK í síma 528 9000.

VG

UMMÆLI

Sambíó