Laxveiði hefur verið fremur treg í íslenskum laxveiðiám ef marka má aflatölur síðustu ára. Í flestum ám hefur aflinn verið minni en árið áður þegar listi Landssambands veiðifélaga er skoðaður en listinn var uppfærður 15. ágúst. Tímabili laxveiða er þó ekki lokið.
Miðfjarðará á toppnum
Á lista yfir 50 aflahæstu árnar sitja 11 ár á Norðurlandi en Miðfjarðará er aflahæst þeirra og situr í fjórða sætinu yfir landið allt með 1.863 veidda laxa. Í fyrra veiddust 3.765 laxar og því ólíklegt að svipaðri tölu verði náð á þeim tíma sem eftir er af veiðinni. Veiðisvæði Miðfjarðarár er 84 km að lengd, með meira en 200 merktum veiðistöðum; þó hefur það gerst að lax veiðist utan merktra staða.
Ár í Húnavatnssýslu ofarlega á lista
Af þessum aflahæstu ám á Norðurlandi eru þær flestar í Húnavatnssýslu. Blanda situr t.a.m. í tíunda sæti með 848 veidda laxa en í fyrra voru þeir 1.433. Þá situr Laxá á Ásum í 16. sæti með 522 veidda laxa en 1.108 veidda laxa 2017. Laxá í Aðaldal fylgir fast á eftir í 18. sæti með 499 veidda laxa og 709 í fyrra. Af norðlenskum ám hefur minnst verið veitt af laxi í Svartá þar sem aðeins 93 laxar hafa verið veiddir en 128 voru veiddir á síðasta ári. Svartá situr í 46. sæti á listanum.
Hér á eftir fer samantekt yfir afla í norðlenskum ám veiðisumarið 2018. Upplýsingarnar eru fengnar af vefsíðu Landssambands veiðifélaga:
15.08.18 Lokatölur 2017
4. sæti – Miðfjarðará 1.863 3.765
10. sæti – Blanda 848 1.433
16. sæti – Laxá á Ásum 522 1.108
18. sæti – Laxá í Aðaldal 499 709
21. sæti – Víðidalsá 416 781
28. sæti – Vatnsdalsá í Húnaþingi 304 714
34. sæti – Hrútafjarðará 233 284
36. sæti – Skjálfandafljót 200 378
43. sæti – Deildará 121 238
45. sæti – Fnjóská 99 107
46. sæti – Svartá 93 128
UMMÆLI