NTC

Tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands í Varmahlíð

Tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands í Varmahlíð

Um helgina útnefndi Skógræktarfélag Íslands Tré ársins 2024 við hátíðlega athöfn í Varmahlíð.

Tré ársins er í ár Skógarfura (Pinus sylvestris) í skógarlundi sunnan við Mánaþúfu í Varmahlíð. Í frétt á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Skógarfura sé valin sem Tré ársins. Þar segir jafnframt að Skógarfura hafi verið mikið gróðursett á 6. og fram á 7. áratug síðustu aldar, en varð fyrir miklum skakkaföllum af völdum furulúsar, sem grandaði henni að mestu, og er hún því sjaldgæf hérlendis nú.

Söngkvartettinn Vorvindar glaðir flutti vel valin lög við athöfnina, Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, ávarpaði svo gesti, en auk hans fluttu ávörp Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga og Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins. Var Skógræktarfélagi Skagfirðinga afhent viðurkenningaskjal sem eigenda trésins og skilti sem markar tréð afhjúpað.

Að venju var tréð mælt við athöfnina og sá skógfræðingurinn og heimamaðurinn Johan Holst um það. Reyndist tréið vera 13,9 m á hæð með þvermál upp á 30,5 cm í brjósthæð.

Athöfninni lauk svo með kaffihressingu í matsal Hótels Varmahlíðar, þar sem söngkvartettinn flutti einnig nokkur lög.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Johan Holst mælir tré ársins.

Forsíðumynd: F.v. Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins, Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við útnefninguna.

Heimild og myndir/Skógræktarfélag Íslands

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó