NTC

Traust staða og lækkun skulda

Guðmundur Baldvin skrifar:

Ágæti lesandi.

Gjarnan er rætt um stöðu sveitarfélaga í aðdraganda kosninga og því full ástæða til að varpa ljósi á stöðuna hjá okkur hér á Akureyri. Strax í upphafi kjörtímabilsins var stefnan hjá núverandi meirihluta sett á að ná stöðugleika í rekstri, byggja upp traustan grunn til framtíðar, bæta upplýsingagjöf og gera stjórnsýsluna markvissari.

Langtímaskuldir lækkað um ríflega milljarð
Lykillinn af því að búa í haginn fyrir framtíðina er traustur fjárhagur. Við höfum á þessu kjörtímabili séð skuldahlutfall sveitarfélagsins lækka úr 112%  í 95% í árslok 2017 og þegar horft er til A-hluta hefur skuldahlutfallið lækkað úr 100% í 82% í lok árs 2017. En skuldahlutfall segir ekki alla söguna því langtímaskuldir hafa lækkað um ríflega 1 milljarð króna hjá A-hluta sveitarfélagsins á síðustu fjórum árum.

Skynsemi í fjárfestingum
Það sem helst skýrir þennan viðsnúning má rekja til skynsemi í fjárfestingum. Þannig höfum við á þessu kjörtímabili fjárfest fyrir ríflega 3,4 milljarða hjá A-hluta, sem er mun minna en kjörtímabilin þar á undan eins og sjá má á mynd hér að neðan.

Betri upplýsingagjöf
Við höfum ennfremur unnið markvisst að því að bæta upplýsingagjöf til bæjarbúa. Nú eru mánaðarlega lagðar fram tölur um rekstur og fjölda stöðugilda, tekin voru upp hálfsárs uppgjör, bókhald sveitarfélagsins var gert aðgengilegt á heimasíðu bæjarins þar sem einnig má finna vandaða greinargerð um fjárhagsáætlun. Óhætt er að segja að vel hafi til tekist og við erum að skila sveitarfélaginu í mun betri stöðu og erum tilbúin að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Er tilbúinn til verka

Lesandi góður.

Ég hef sem formaður bæjarráðs leitt vinnu við fjármál sveitarfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili og hef lagt mig allan fram um að skila góðum og vönduðum vinnubrögðum.  Ég er tilbúinn til áframhaldandi verka. Settu X-við B á kjördag.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins

Sambíó

UMMÆLI