NTC

Tónlistarbandalag Akureyrar endurstofnað

Tónlistarbandalag Akureyrar endurstofnað

Akureyrsk tónlistar áhugafélög endurstofnuðu á dögunum Tónlistarbandalag Akureyrar með því markmiði að styðja við tónlistarlíf í bænum. Félagið hefur sent Bæjarráði Akureyrar erindi þar sem talsmenn bandalagsins óska eftir að funda með bæjarráði. Markmið fundarins er að útskýra fyrir bæjarráði ástæðu þess að bandalagið var stofnað á ný og kynna fyrir bæjarráði þann skort á aðstöðu til æfinga og hagkvæms viðburðarhalds sem þau segja hafa reynst viðvarandi í bænum.

Þetta segir í tilkynningu frá Tónlistarbandalagi Akureyrar:

Tónlistarbandalag Akureyrar varð fyrst til á árunum 1945-1946 þegar Karlakórinn Geysir og Karlakór
Akureyrar og Tónlistarfélag Akureyrar, Lúðrasveit Akureyrar og Kantötukór Akureyrar stofnuðu til
samvinnu. Afrakstur þeirrar samvinnu varð stofnun Tónlistarskólans á Akureyri og bar
Tónlistarbandalag Akureyrar ábyrgð á rekstri Tónlistaraskólans sem eigandi og bakhjarl allt til þess að
Akureyrarbær tók skólann að fullu yfir árið 1990.

Upphafleg hugmynd um samstarfið 1945 snerist um að koma upp tónlistarhúsi – fyrir æfingar og
viðburði frjálsra tónlistarhópa í bænum. Ekki hafa væntingar forystufólks tónlistarhópa eða
tónlistartengdra hópa á Akureyri farið eftir að því er varðar hagstætt æfingahúsnæði fyrir fjölbreytta
hópa né heldur að til boða standi hagkvæmt og viðeigandi hús eða salir til viðburðarhalds með þeim
kjörum sem auðvelda eða efla slíkt starf.

Tónlistarbandalag Akureyrar/TBA hefur nú verið stofnað að nýju – með það fyrir augum að leita
samstarfs við bæjaryfirvöld á Akureyri um vandaða greiningu á þörfum og óskum tónlistarhópa
áhugafólks – sem unnt væri að nota í samtali við ríkisvaldið um menningarsamninga og leggja til
grundvallar þróun og uppbyggingu á metnaðarfullri og hagkvæmri aðstöðu fyrir æfingar og
viðburðahald.

Erindi þar að lútandi hefur verið komið á framfæri við Bæjarráð Akureyrar – með ósk um að fá að
kynna málefni og aðstöðu þeirra hópa sem starfa á vettvangi frjálsrar þáttöku sjálfboðaliða í tónlist
eða á tónlistartengdum vettvangi – oftast án allra launa – þannig að kraftar aðila megi nýtast sem
best til menningarsköpunar og aukinna lífsgæða í Höfuðstað Norðurlands.

Aðilar á vettvangi Tónlistarbandalags Akureyrar/TBA árið 2023 eiga bakland í mismunandi fjölda
virkra þátttakenda á hverjum tíma. Verðmæti þess starfs er ekki auðvelt að tölufesta enda alls ekki
eingöngu efnahagslegt heldur jafnframt og ekki síður mjög mikilvægt í menningarlegu tilliti og þau
lífsgæði sem slíkt starf veitir bæði þátttakendum og neytendum er óumdeilt afar jákvæður hluti af
heilbrigðu samfélagi. Árið 2018 vísaði þáverandi mennta og menningarmálaráðherra (LA)
sérstaklega til mikilvægis menningarhúsa á landsbyggðinni „fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði á
sviði lista og menningararfs“ – þar sem „landsmenn fái notið lista og menningar og geti tekið þátt í
slíku starfi“ (Við samningsgerð vegna menningarhúss í Skagafirði).

Tónlistarbandalag Akureyrar 2023:
Tónlistarfélag Akureyrar b/t Michael Jón Clarke
Lúðrasveit Akureyrar b/t Kjartan Ólafsson
Karlakór Akureyrar-Geysir b/t Benedikt Sigurðarson
Kvennakór Akureyrar b/t Þórunn Jónsdóttir
Arctic Opera b/t Michael Jón Clarke
Hljómsveit Akureyrar (áhugamanna) b/t Michael Jón Clarke
Kvennakórinn Emblur b/t Róar Kvam
Kór fyrir alla b/t Hermann R Jónsson
Kammerkór Norðurlands b/t Ásgeir Böðvarsson
Danshópurinn Vefarinn b/t Margrét Brynjólfsdóttir
Félag Harmonikuunnenda við Eyjafjörð b/t Agnes Harpa Jósavinsdóttir
Kvæðamannafélagið Gefjun á Akureyri b/t Sesselja Ólafsdóttir
Í fínu formi; kór EBAK b/t Aðalbjörg Áskelsdóttir
Hymnódia; b/t Eyþór Ingi Jónsson

Sambíó

UMMÆLI