Tómatsósubrandarinn

Tómatsósubrandarinn

Undanfarið hef ég þurft að taka því rólegar en ég hefði kosið. Mér líður ágætlega en þarf að huga að gróanda eftir aðgerð og verandi hjúkrunarfræðingur er ég auðvitað meðvituð um nauðsyn þess að hvílast undir slíkum kringumstæðum. Það að vita gerir það þó ekki alltaf auðvelt að framkvæma. Væri svo, myndu sálfræðingar vera í fullkomnu andlegu jafnvægi, uppeldisfræðingar eiga fullkomin börn, bifvélavirkjar fullkomna bíla og svo mætti lengi telja.

Þannig er tilveran bara ekki vaxin og því hef ég þurft að hafa verulega fyrir því að taka þessu nýjasta útspili tilverunnar með þolinmæði, mig hreinlega langar ekki að hvíla mig og æðruleysið er með hálla móti og erfitt að festa á því hendur. Þetta gerir það að verkum að þráðurinn styttist og það er snúnara en venjulega að vera glöð. Og æðrulaus.

Fyrir nú utan þau ósköp að kosningar nálgast og menn berast á banaspjótum í umræðunni jafnvel svo að persónulegt skítkast fer að verða daglegt brauð,- eins og það bragðast nú illa með kaffinu. Menn keppast við að dusta rykið af öllu því sem miður fór síðustu fjögur ár og af nógu er greinilega að taka. Við virðumst sitja uppi með haug af spilltum stjórnmálamönnum sem láta sig eigin hneykslismál engu varða og ekki nóg með það heldur kjósum við þá ótrauð áfram. Ég gæti haldið lengi áfram að útlista hörmungarnar bæði á heimsvísu og hér heima. Ég þarf ekkert að segja ykkur af Covid og loftslagshörmungum og annarri óáran. Ég hlusta á fréttir og ég hef áhuga á stjórnmálum og á köflum verð ég tuðandi og miðaldra,- kannski ekki alveg „virk í athugasemdum” en svona svolítið að láta pirringinn smita út í samfélagsmiðlana. Maður þarf jú að taka ábyrga afstöðu ekki satt?

En svo gerist eitthvað sem minnir á hvað það er sem skiptir máli.  Minn bráðum þriggja ára sonarsonur hringdi myndsímtal í ömmu í morgun og við fórum að tala um brandara. Ég sagði honum brandarann um tómatinn sem varð undir bíl og var þá bent á (af millikynslóðinni) að hann væri miklu fyndnari á ensku. Það varð til þess að barnið bað ömmu að segja brandarann á ensku og þegar því var lokið hvort ég myndi vera svo væn að syngja hann á ensku. Og amma syngur tómatabrandarann á ensku. Með frumsömdu lagi og texta. Málið vandast aðeins þegar barnið segir „aftur” eins og börn gera og amma þarf að reyna að rifja upp textann og lagið aftur. Svo syngur amma lagið um drenginn og mömmu hans og pabba og ömmu á Akureyri og það var líka uppklapp og endurtekið með ofurlitlum tilbrigðum.

Allt þetta samtal var hvorugt okkar að hugsa um stjórnmál, sár sem ekki gróa, covid eða neitt annað en þessa litlu söngstund og samskiptin okkar á milli heimsálfa. Og ekkert alvarlegt gerðist þrátt fyrir það. Hann bara dró mig í núið sitt þar sem hann kann svo vel að vera og athygli ömmu beindist að því sem er jákvætt og gott.

Það er jú galdurinn, allt sem við veitum athygli það vex og dafnar. Ef athyglin festist um of á því hversu allt sé erfitt og ómögulegt, þá virkilega verður allt bæði erfitt og ómögulegt.

Stundum er bent á þá staðreynd að núið er í raun allt sem er raunverulegt þar sem fortíðin er jú liðin og framtíðin ókomin. Ekki svo að skilja að núið er ekki alltaf jafn ljúft og það var hjá mér í myndsímtalinu í morgun, líðandi stund getur verið sársaukafull og þungbær. Og þá krefst það hugrekkis að gangast við augnablikinu og takast uppréttur á við áskoranir tilverunnar.

Galdurinn við að vera glaður er kannski einmitt fólginn í því að mæta lífinu á forsendum lífsins. Ekki að þvinga fram einhverja jákvæðni gagnvart erfiðleikum eða falskan hressileika á erfiðum stundum, -heldur einfaldlega að opna hjartað fyrir öllu því sem er.  Og enginn lofaði okkur að það yrði alltaf gaman og það er ávísun á vonbrigði að ætla að svo verði.

Ég ætla örugglega að halda áfram að æfa mig. Æfa mig í að taka litbrigðum daganna, æfa mig í að taka góðar ákvarðanir sem eru mér og öðrum hjálplegar en láta ekki gráma og þungbúna daga taka yfir hugarfarið. Hætta aldrei að reyna að meðtaka og rifja upp þegar ég gleymi. Og svo þarf ég auðvitað að æfa mig í að syngja brandara, teikna hús með gluggum og strompi og leiklesa bækur. Þetta sem skiptir máli í alvöru og er aldrei fullæft!


Vilt þú birta grein á Kaffið.is? Sendu á okkur með því að smella hér

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó