NTC

Tom Barry nýr sviðsforseti Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Tom Barry nýr sviðsforseti Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Gengið hefur verið frá ráðningu dr. Tom Barry sem forseta Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Tom mun hefja störf 1. júní næstkomandi en þangað til mun Birgir Guðmundsson, settur sviðsforseti, gegna stöðunni. Frá þessu er greint á vef Háskólans í dag.

Fram kemur í tilkynningu Háskólans að Tom Barry sé landfræðingur frá Háskólanum í Cork á Írlandi og að hann hafi lokið doktorsprófi í stjórnarfari og stjórnsýslu umhverfismála frá Háskóla Íslands.

Síðastliðin fimmtán ár hefur Tom starfað sem framkvæmdastjóri Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF) en stofnunin heldur utan um verkefni vinnuhóps Norðurskautsráðsins um verndun lífríkis og líffræðilegs fjölbreytileika á Norðurslóðum. Í starfi framkvæmdastjóra CAFF hefur Tom unnið með vísindafólki frá fjölmörgum háskólum og rannsóknarstofnunum víða um heiminn.

Starfsreynsla Tom er af innlendum og alþjóðlegum vettvangi og þekkir hann vel til málefna háskóla og opinberrar stjórnsýslu. Hann hefur mikla reynslu af kennslu og fyrirlestrahaldi í háskólaumhverfinu og hefur m.a. komið að kennslu við Háskólann á Akureyri, Háskólasetur Vestfjarða, University of Limerick á Írlandi og University College of Cork á Írlandi.

„Háskólinn á Akureyri er spennandi starfsvettvangur í sífelldri þróun og ég fagna þeirri áskorun að nýta reynslu mína og þekkingu til góðra verka í starfi forseta Hug- og félagsvísindasviðs. Ég hlakka mikið til að kynnast samstarfsfólki og stúdentum háskólans og hjálpa til við að móta þróun sviðsins ásamt því að styðja við allt það spennandi starf sem unnið er við Hug- og félagsvísindasvið HA,“ segir Tom á vef skólans.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó