Blóðsýni úr þremur einstaklingum, sem grunur lék á að hefði verið byrlað ólyfjan á skemmtistað á Akureyri í október, sýndu fram á töluvert áfengismagn en engin merki voru um deyfilyf eða fíkniefni. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
„Í lok október síðastliðnum fékk Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra til rannsóknar þrjú mál vegna gruns um að þremur einstaklingum hafi verið byrlað lyf eða fíkniefni á skemmtistöðum eða í heimahúsum á Akureyri. Í tilefni af þessum málum voru tekin blóðsýni úr þeim aðilum sem tilkynntu grun um byrlun. Í öllum tilvikum voru sýnin tekin fljótlega eftir að grunur vaknaði um brot og strax eftir að afskipti lögreglu hófust. Við rannsókn á sýnunum kom í ljós að einstaklingarnir höfðu töluvert áfengismagn í blóðinu en engin merki voru um deyfilyf eða fíkniefni,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Í tilviki fjórða aðilans taldi læknir að ekki væri um byrlun væri að ræða og voru ekki tekin blóðsýni. Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að lögreglan hafi áður haft samskipti af þeim aðila.