Elsa María Guðmundsdóttir skrifar.
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýndi söngleikinn Galdrakarlinn í Oz í Hofi laugardaginn 14. mars. Upphaf verksins má rekja allt til aldamótanna 1900, en þá kom út samnefnd barnabók eftir L. Frank Baum. Leikgerð söngleiks LMA er svo byggð á íslenskri þýðingu Bergs Þórs Ingólfssonar.
Sögusvið söngleiksins er bandarísk sveit og stúlkan Dórótea, ásamt hundinum sínum Tótó, lendir í ævintýrum þegar hvirfilbylur feykir henni til töfralandsins Oz. Dórótea vill auðvitað komast aftur heim, enda ýmislegt bæði háskalegt og framandi í Oz. Þar eru nornir, góðar og slæmar, og fleiri en Dórótea sem þurfa á hjálp að halda. Það eru heilalausa Fuglahræðan, hjartalausi Tinkarlinn og huglausa Ljónið. Þau ákveða að halda hópinn og leita aðstoðar Galdrakarlsins í Oz.
Það er skemmst frá því að segja að sýningin hittir algjörlega í mark með frábærri persónusköpun, hressilegum og sannfærandi leik. Tónlist, söngur og dans skipar stóran sess og það er allt afar vel gert. Sviðsmynd, ljós, litir og form í sýningunni eru líka mikið augnayndi. Eitt atriði má nefna og það eru hljóðgæði í sýningunni. Stundum ójafnvægi milli tals, söngs og hljómsveitar. Þetta er þó alls ekki sýningunni til frádráttar og örugglega eitthvað sem má slípa til.
Allir aðalleikarar skila sínu með mikilli prýði, túlka persónur af gleði, næmni og um leið ná þau vel til áheyrenda. Söngur virkilega vel fluttur og sviðshreyfingar fumlausar og öruggar. Dansarar og aðrir leikarar gera mjög vel. Þetta skilar kröftugri og sannfærandi heildarmynd verksins.
Söngleiknum stýrir Egill Andrason og má hann vera mjög stoltur af sínu verki. Margar frábærar lausnir, húmor og boðskapur söngleiksins kemst vel til skila og greinilegt að hann hefur góð tök á verkefninu. Eins verður að nefna allan þann fjölda sem kemur að sýningu sem þessari, en tæplega hundrað manns koma að verkinu. Hljómsveitin skilaði tónlistinni mjög fallega og tæknilausnir, sviðsmynd, búningar og gervi virkilega vel gerð. Þvílíkur fjársjóður fyrir samfélagið að eiga þetta unga fólk í Leikfélagi Menntaskólans á Akureyri, sem ár eftir ár leggur ástríðu og vinnu í að gera sýningar sem þessa að veruleika. Um leið eignast kynslóðir nemenda þetta einstaka tækifæri til að njóta hæfileika sinna og upplifa mikilvægi þess að leggja af mörkum til lista og menningar.
Í gleði og töfrum Oz er einnig að finna fallegan og mikilvægan boðskap fyrir samfélagið. Við sem manneskjur erum oft ansi uppteknar af því sem vantar eða telst vera á einhvern hátt öðruvísi eða gallað. Leitum jafnvel að ytri töfralausnum með ærnum tilkostnaði og vanlíðan. En auðvitað er lausnin oftast innra með okkur, við eigum að fá að vera við sjálf og hamingjuna er hægt að höndla á einfaldan hátt. Þetta fá vinirnir í Oz að reyna og skilar boðskapurinn sér vel til áheyrenda.
Mæli innilega með töfrandi kvöldstund í Oz, menningarhúsið Hof rammar verkið fallega inn og öll fjölskyldan getur þarna notið þess sem töfrar í góðu leikhúsi bíður upp á. Ég fór með 19 ára syni mínum á sýninguna og hann skemmti sér konunglega. Sýningar standa til 6. apríl og hægt er að skoða tímasetningar á mak.is.
Hjartanlega til hamingju með framúrskarandi verk LMA!