Framsókn

Tjónamartröðin mikla

Tjónamartröðin mikla

Hildur Friðriksdóttir skrifar:

Segja má að loðnar bókanir og óljós málflutningur hafi einkennt afgreiðslu bæjarstjórnar á Tónatraðarmálinu á síðasta bæjarstjórnarfundi. Þau sem greiddu atkvæði með tillögunni, og gerðu grein fyrir atkvæði sínu, var tíðrætt um að afgreiðslan á þessu stigi málsins hefði litla sem enga þýðingu þar sem eingöngu væri verið að greiða atkvæði um hvort setja ætti málið í kynningarferli. Af orðum þeirra mátti skilja að nú fyrst væri hin raunverulega hönnunar- og hugmyndaflæðivinna að fara í gang og með því að samþykkja að setja þetta í kynningu væri verið að veita bæjarbúum einstakt tækifæri til þess að koma sínum skoðunum á framfæri og hafa þar með áhrif á endanlega útfærslu á skipulaginu fyrir svæðið. Þessi framsetning á málinu er vægast sagt villandi og til þess fallin að slá ryki í augu fólks og látum þá liggja milli hluta hvort það hafi verið með vilja gert eða ekki.

Burtséð frá því hvað bæjarfulltrúar telja sig hafa verið að greiða atkvæði um, þá er staðreyndin sú að með afgreiðslu sinni í síðustu viku hefur meirihluti bæjarfulltrúa nú samþykkt að hefja skuli vinnu við breytingar á deiliskipulagi við Spítalaveg til samræmis við tillögu SS Byggis sem lögð var fyrir fundinn. Og til glöggvunar þá byggir sú tillaga á fjórum sjö hæða fjölbýlishúsum vestan megin við Tónatröð, tveimur sitt hvoru megin við aldursfriðað hús frá 1905. Bæjaryfirvöld hafa ekki gert minnstu tilraun til þess að setja eigið fingrafar á þessa tillögu t.d. með einhvers konar skilmálum um stærð, lögun, efnisval og form bygginga. Þess í stað fá blokkir SS Byggis að standa óbreyttar sem tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið. Með öðrum orðum þá hefur Akureyrarbær kosið að afsala sér skipulagsvaldi yfir viðkvæmu svæði í eldri byggð með því að fela byggingarverktaka að vinna tillögur að uppbyggingu þar án nokkurra skilmála. Og það þykja mér heldur ódýr vinnubrögð af hendi bæjaryfirvalda.

Gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir átta einbýlishúsalóðum á svæðinu. Þar sem fyrirhuguð byggingaráform SS Byggis teljast til verulegra breytinga á deiliskipulagi þarf tillagan að fara í svokallaða skipulagslýsingu sem er það ferli sem bæjarstjórn hefur nú samþykkt að setja málið í. Á því stigi málsins ber sveitarstjórn, samkvæmt skipulagsreglugerð, að setja deiliskipulagstillöguna í sérstakt kynningarferli og veita íbúum og umsagnaraðilum tækifæri til þess að koma ábendingum á framfæri. Það er því ekki þannig að bæjarstjórn hafi með ákvörðun sinni haft eigið frumkvæði að því að íbúum yrði hleypt að borðinu, heldur er eingöngu verið að fylgja lögbundnu ferli við skipulagsbreytingar. Þess ber þó að geta að hér er verið að hleypa almenningi að ferlinu rétt í blálokin. Á þessu stigi málsins er ekki boðið upp á að íbúar, verktakar, arkitektar eða fagaðilar setji fram sínar hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu. Það eina sem almenningur fær að hafa skoðun á er þessi tiltekna tillaga frá SS Byggi. Ekkert annað. Allt tal um íbúasamráð við útfærslu skipulagsins á svæðinu er því beinlínis hlægilegt.

Sjá einnig: Er það hlutverk verktaka að móta ásýnd bæjarins?

Ef raunverulegur vilji hefði verið til þess að byggja ferlið á samráði, þá hefði almenningi að sjálfsögðu verið hleypt að borðinu mun fyrr í ferlinu þegar enn var svigrúm til að hafa áhrif á útfærsluna. Og bæjarstjórn hefði vel getað tekið ákvörðun um að fara með málið aðrar leiðir á síðasta bæjarstjórnarfundi – leiðir sem hefðu boðið upp á raunverulegt íbúasamráð og faglegri vinnubrögð. Þar með hefðu bæjarfulltrúar jafnframt sent skýr skilaboð um að vinnubrögð sem byggja á óvandaðri stjórnsýslu eru að sjálfsögðu ekki í boði. Þess í stað kýs meirihluti bæjarfulltrúa að líta svo að það sé ekki í þeirra verkahring að taka afstöðu til þess sem á undan er gengið. Afgreiðsluferlið sé ekki til umræðu hjá nýrri bæjarstjórn og komi þeim í raun ekki við. Það þýðir jafnframt að þessum bæjarfulltrúum finnst engin ástæða til þess að taka umræðu um með hvaða hætti sé hægt að er réttlæta að lóðirnar við Tónatröð séu afhentar einum aðila án auglýsingar. Né heldur þykir þeim ástæða til þess að ræða hvaða sérstöku aðstæður kalla á að farið sé á svig við skipulagslög, stjórnsýslulög og reglur Akureyrarbæjar um lóðaúthlutanir við afgreiðslu þessa máls. Í þessu samhengi langar mig þó til þess að minna bæjarfulltrúa á að samkvæmt 8. gr. sveitarstjórnarlaga þá ber bæjarstjórn m.a. að sjá um að lögbundnar skyldur séu ræktar og hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélagsins. Að firra sig ábyrgð á því hlutverki er því brot á sveitarstjórnarlögum.

Í lokin langar mig til þess að hvetja alla bæjarfulltrúa til þess að kynna sér vel lög um menningarminjar sem og starfsemi og hlutverk Minjastofnunar sem er sú stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í samræmi við ákvæði þeirra laga. Að bæjarfulltrúar leyfi sér að koma upp í pontu á bæjarstjórnarfundi og tala með niðrandi hætti um starfsfólk Minjastofnunar, líkt og bæjarfulltrúi Andri Teitsson, er fullkomlega óboðlegt og afhjúpar það skilningsleysi sem því miður virðist vera ríkjandi gagnvart minjavernd innan bæjarkerfisins. Ég kalla hér með eftir þeirri þroskuðu og vönduðu umræðu, sem bæjarfulltrúum var tíðrætt um að væri mikilvægt að viðhafa í þessu máli, og legg til að sú umræða hefjist á því að færð séu málefnaleg rök fyrir því hvers vegna það sé góð hugmynd að fara þá leið að fela útvöldum byggingarverktaka ótakmarkað skipulagsvald yfir einu elsta hverfi bæjarins.

Höfundur er íbúi við Spítalaveg

VG

UMMÆLI

Sambíó