Nú fer árið 2016 að líða undir lok og því ekki úr vegi að rifja upp atburði ársins. Kaffið.is fór í loftið á seinnihluta þessa árs, nánar tiltekið 19. september síðastliðinn. Ungur aldur mun þó ekki stoppa okkur í því að líta yfir farinn veg á þessum tímamótum.
Við tókum saman 10 vinsælustu fréttir Kaffisins á þessu ári.
10. Hamingjusamar hænur í Eyjafirði
Eitt stærsta fréttamál ársins var þegar Kastljósið afhjúpaði hræðilegar aðstæður sem hænur lifðu við hjá Brúnegg. Það var þó ekki það sama uppi á teningnum hjá Grænegg hér í Eyjafirði. Kaffið fjallaði um hamingjusamar hænur hjá Grænegg og var það 10. vinsælasta frétt ársins.
9. Tveir Akureyringar á lista yfir 200 bestu knattspyrnumenn í heimi
Íslendingar fóru mikinn á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar og vöktu heimsathygli. Nú í lok árs birti The Guardian lista yfir 200 bestu knattspyrnumenn ársins og þar voru 4 Íslendingar. Tveir af þessum mönnum eru Akureyringar, frábær árangur.
8.Foodco selur Greifann
Greifinn hafði verið í eigu stórfyrirtækisins FoodCo frá árinu 2006. Það vakti mikla athygli þegar Arinbjörn og Hugrún ásamt Natten Ehf. tilkynntu að þau væru að kaupa þennan vinsæla veitingastað.
7. Íslensk stúlka leitar föður síns – Darri fundinn.
Thelma Karen Hilmarsdóttir birti Facebook færslu í desember um að faðir hennar sem væri á leið til Íslands væri týndur. Hann fannst að lokum og Thelma þakkaði fyrir hjálpina sem Íslendingar veittu við leitina.
Darri fundinn – Thelma vill þakka fyrir hjálpina við leitina
6.Ká-Aká og Úlfur Úlfur gefa út lagið Draugar
Halldór Kristinn Harðarsson, Ká-Aká eða Halli rappari, hvað sem hann er kallaður er það víst að hann er á hraðri leið upp stjörnuhimininn. Hans stærsta lag hingað til, Draugar, var frumsýnt á Kaffinu í byrjun nóvember.
5.Hvanndalsbræður heiðra minningu Ingimars Eydal
Hvanndalsbræður ákváðu að heiðra Ingimar Eydal á afmælisdegi hans 20. október. Þeir frumsýndu útgáfu af María Isabel, lagi með hljómsveit Ingimars Eydal, á Kaffinu og létu fylgja með stórskemmtilegt myndband.
4. Lögreglan óskar eftir vitnum að því þegar ekið var á dreng
Ekki gleðilegasta frétt ársins. Ekið var utan í dreng við Múlasíðu á Akureyri og lögreglan óskaði eftir vitnum á Facebook síðu sinni.
3. Barnaverndarstofa leitar að fósturforeldrum fyrir börn á flótta
Barnaverndarstofa auglýsti eftir fósturforeldrum fyrir börn sem komu hingað til landsins eftir flótta frá sínum heimalöndum.
Barnaverndarstofa leitar að fósturforeldrum fyrir börn á flótta
2. Gáfu flóttafólki bíl
Guðrún Arndís Aradóttir og fjölskylda hennar gáfu nýju nágrönnum sínum, sem höfðu flúið hingað til lands frá Sýrlandi fyrr á árinu, bíl. Það vakti athygli.
1. Stríðsyfirlýsing Sigmundar?
Sigmundur Davíð bauð til veislu á sama tíma og flokkur hans fagnaði aldar afmæli í Þjóðleikhúsinu. Það var vinsælasta frétt ársins á Kaffinu.
UMMÆLI