NTC

Tímavélin – KA Íslandsmeistari í handbolta

Efri röð frá vinstri: Ingibjörg Ragnarsdóttir, nuddari, Leó Örn Þorleifsson, Sverre Jakobsson, Guðmundur Arnar Jónsson, Erlingur Kristjánsson, Heiðmar Felixsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Róbert Julian Duranona, Sergey Ziza, Árni Stefánsson, aðstoðarþjálfari. Neðri röð frá vinstri: Halldór Jóhann Sigfússon, Sævar Árnason, Björgvin Björgvinsson, Hörður Flóki Ólafsson, Jakob Jónsson, Hermann Karlsson, Jóhann Gunnar Jóhannsson, Alfreð Gíslason, spilandi þjálfari.

Tímavélin er fastur liður hér á Kaffinu þar sem við birtum skemmtilega og eftirminnilega hluti, myndbönd, myndir, viðtöl og fleira úr fortíðinni.

Í Tímavélinni í dag rifjum við stóra stund í akureyrskri íþróttasögu frá árinu 1997, nánar tiltekið 12.apríl þegar KA varð Íslandsmeistari í handbolta í fyrsta sinn. Leið KA að gullinu var löng og ströng því liðið þurfti í oddaleik, bæði í 8-liða úrslitum gegn Stjörnunni og í undanúrslitum gegn Haukum. KA vann Hauka í oddaleik í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði með minnsta mögulega mun í æsilegum leik.

Í úrslitaeinvíginu beið firnasterkt lið Aftureldingar sem hafði unnið deildarkeppnina en meðal leikmanna liðsins voru Bjarki Sigurðsson, Bergsveinn Bergsveinsson og Páll Þórólfsson svo einhverjir séu nefndir. Lið KA var þó alls ekkert slor, undir styrkri stjórn Alfreðs Gíslasonar.

Þó Afturelding ætti heimaleikjaréttinn í úrslitaeinvíginu fór að lokum svo að KA-menn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í KA-heimilinu og unnu úrslitaeinvígið 3-1 eftir að hafa tapað fyrsta leiknum í einvíginu. Íslenski Kúbverjinn Róbert Julian Duranona lék á als oddi í leiknum, skoraði 11 mörk í 24-22 sigri. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Ágúst Stefánsson klippti saman.

Á heimasíðu KA má nálgast frekari upplýsingar um þetta magnaða tímabil með því að smella hér.

Sambíó

UMMÆLI