NTC

Tilnefningar til manneskju ársins árið 2023

Tilnefningar til manneskju ársins árið 2023

Líkt og undanfarin ár stendur Kaffið.is fyrir vali á manneskju ársins frá Akureyri og nágrenni. Í ár gátu lesendur tilnefnt manneskjur og bárust fjölmargar tilkynningar til okkar.

Hér að neðan má lesa um þá tíu einstaklinga sem fengu flestar tilnefningar og lesendur geta svo neðst í greininni kosið á milli þeirra. Úrslit verða tilkynnt hér á Kaffið.is á gamlársdag.


Íris Rún Gunnarsdóttir

Íris Rún og eiginmaður hennar Arnar Gauti Finnson hafa tekið fjölda barna í tímabundið fóstur og hafa í mörg ár lagt sitt af mörkum til að bæta hag barna og ungmenna á Akureyrarsvæðinu.

Úr tilnefningum: „Íris er einstök mannvera með einstakt hjartalag. Að ræða við Írisi lætur engan ósnortin þar sem henni er augljóslega svo innilega annt um fólk og börn og hefur sýnt það margoft í verki.“


Krista Sól Guðjónsdóttir

Krista Sól, Inspectrix scolae í Menntaskólanum á Akureyri hefur verið í fararbroddi baráttunnar fyrir því að MA og VMA fengju að halda áfram að starfa sem tveir sjálfstæðir framhaldsskólar.

Úr tilnefningum: „Hún lagði nótt við dag í vinnu sinni og náði að leggja Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmund Einar Daðason, á ippon, m.a. með því að benda á brot ráðherrans á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“


Ragnheiður Gunnarsdóttir

Ragnheiður hefur starfrækt Kisukot á Akureyri frá árinu 2012. Í ár hefur hún ásamt Samtökum um dýravelferð á Íslandi barist fyrir því að fá aðstoð frá bæjarstjórn fyrir starfsemina.

Úr tilnefningum: „Hún eyðir öllum sínum tíma í að halda villiköttum i skefjum og vinnur í raun starfið sem Akureyrarbær á að sjá um.“


Dýrleif Skjóldal

Dýrleif Skjóldal, eða Dilla, sinnir mögnuðu starfi fyrir Sundfélagði Óðinn á Akureyri og kennir flestum börnum bæjarins að synda. Dillusund er fastur liður hjá mörgum börnum á Akureyri.

Úr tilnefningum: „Dilla mætir alltaf hress ofan í laugina og sinnir börnunum okkar vel. Dilla er mjög vel liðin hjá langflestum börnum bæjarins. Hún er einnig leikskólakennari og stendur sig mjög vel þar.“


Snjólaug Ósk Aðalsteinsdóttir

Snjólaug er tilnefnd fyrir sjálboðastarf sitt í þágu velferðarsjóðs Eyjafjarðar og formennsku í Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Mæðrastyrksnefnd Akureyrar er með opið fyrir viðtöl og umsóknir fyrir stuðning við efnaminni allt árið um kring og jólaaðstoð velferðarsjóðs er öllum vel kunn.

Úr tilnefningum: „Snjólaug hefur í fjölmörg ár gefið af tíma sínum til starfsins án þess að ætlast til nokkurs á móti og án athygli fjölmiðla eða almennings


Heba Finnsdóttir og Ingibjörg Bergmann Bragadóttir

Heba og Ingibjörg kenndu og útskrifuðu níu framreiðslunema úr sveinsprófi í fyrsta skipti frá Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Úr tilnefningum: „Kjarnakonur sem tóku að sér þetta verkefni ofan á allt annað sem þær gera fyrir matar- og menningarlífið í bænum. Þær brenna sannarlega fyrir því að matarkúltúr á Akureyri lifi góðu lífi.“


Halldór Kristinn Harðarson

Halldór Kristinn Harðarson hefur verið ómissandi hlekkur í skemmtanalífi Akureyrar á árinu. Ásamt því að reka og gera upp skemmtistaðinn Vamos hefur hann staðið fyrir ótal viðburðum í Sjallanum og víðar.

Úr tilnefningum: „Viðburðarstjóri Akureyrar, Dóri bæjarstjóri er ástæðan fyrir því að ungmenni geta yfir höfuð skemmt sér á Akureyri.“


Sigrún Steinarsdóttir

Sigrún Steinarsdóttir vinnur ómetanlegt sjálboðastarf í gegnum Matargjafir Akureyrar. Fyrir jólin aðstoðuðu Matargjafir 178 fjölskyldur og einstaklinga með innlögnum á Matargjafareikninginn, gjafakortum, mat, jólagöfum og eða skógjöfum svo eh sé nefnt. Að auki voru 12 fjölskyldur sem voru styrktar beint.

Úr tilnefningum: „Þvílík seigla. Mögnuð kona sem sinnir ómetanlegu starfi.“


Óðinn Svan Óðinsson

Óðinn Svan hefur haldið fána Akureyrar og Norðurlands hátt í umfjöllun sinni í Kastljósi eftir að hann færði sig þangað yfir frá fréttastofu RÚV á Norðurlandi.

Úr tilnefningum: „Hann hefur gjörbreytt norðlenskum fréttaflutningi. Hann er snillingur í að færa okkur skemmtilegar og mikilvægar fréttir. Hann er ekki hræddur við að spyrja fólk spurninga sem alla langar að vita svörin. Hann hefur klárlega gert þetta ár okkar Akureyringa betra.“


Helgi Rúnar Bragason

Helgi Rúnar safnaði 2.210.001 krónu í Mottumars í ár. Helgi náði eftirtektarverðum árangri í mottumars síðustu tvö ár og safnaði í heildina 3.5 milljónum króna fyrir baráttuna gegn krabbameini. Helgi lést í ágúst aðeins 47 ára gamall eftir hetjulega baráttu sína við krabbamein. Helgi Rúnar var ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra ÍBA í mars 2018 og gegndi hann stöðunni allt til hins síðasta. 

Úr tilnefningum: „Helgi var ótrúlegur maður og dugnaður hans duldist engum sem fékk að kynnast honum. Helgi Rúnar var frábær manneskja og hans verður sárt saknað en minning hans mun ávallt lifa innan íþróttalífsins á Akureyri og víðar.“


Kjóstu manneskju ársins 2023:

Sambíó

UMMÆLI